132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[16:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta frumvarp snýst ekki bara um leiksvæði, ef ég skil það rétt, heldur um hvað eina sem heyrir undir lög nr. 7, m.a. matvælaeftirlit o.fl. Ég er sannfærður um að þessi lagasetning verður ekki endilega til að spara og ég er á því að það gæti ákveðins misskilnings hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins. Ég hef það á tilfinningunni að þessi breyting sé jafnvel komin þaðan. Ef menn ætla að ná fram sparnaði í opinberu eftirliti þá gerist það ekki með framkvæmd af þessu tagi, það gerist ekki með því að einhverjir faggiltir aðilar taki að sér einhver verkefni. Ég er á því að slíkt fyrirkomulag mundi jafnvel auka kostnaðinn. Hvað gerist ef faggiltir aðilar komast að því að eitthvað er í ólagi á viðkomandi leikvelli? Þeir eru ekki hæfir til að beita þvingunarúrræðum heldur þarf í slíkum tilvikum að koma til kasta opinberra aðila. Það er þannig að viðkomandi faggiltir aðilar geta ekki beitt þvingunarúrræðum samkvæmt þessum lögum. Hvað varðar þennan málaflokk í heild þá vil ég beina því til forsvarsmanna atvinnulífsins að frumvörp af þessari gerð spara ekki eina krónu jafnvel frekar að þau auki á kostnað við eftirlit.

Það er miklu nær að horfa til þess skipulags að hver og einn ráðherra þarf að hafa sitt eigið eftirlit. Þar liggur vandinn. Við heyrðum það fyrr í umræðunni, þegar verið var að ræða dýravernd, að landbúnaðarráðherra vill hafa eftirlit með sínum dýrum og umhverfisráðherra með sínum dýrum. Það er vandamálið. Það sama á við í öðrum ráðuneytum. Sjávarútvegsráðherra vill hafa matvælaeftirlit með fiskunum sínum og landbúnaðarráðherra með dýrunum sínum og síðan er búðaeftirlit í höndum umhverfisráðherra. Ef forsvarsmenn atvinnulífsins og aðrir ætla að ná fram sparnaði þá er hægt að grípa þar inn í en ekki búa til eitthvert millistykki í þessum málum öllum. Það mun bara auka kostnaðinn á atvinnulífið og einfaldlega gera framkvæmd laganna óskýrari vegna þess að faggiltir aðilar geta ekki beitt þvingunarúrræðum heldur þurfa þeir að koma athugasemdum til yfirvalda sem geta þá þvingað fram úrbætur.

Í lögum nr. 7/1998, hvað leikvelli varðar, er gert ráð fyrir áminningu og síðan lokun. Það er úrræðið. Það er mjög erfitt fyrir eftirlitsaðila að ná fram úrbótum með þessum úrræðum og dagsektarákvæði er því miður ónýtt. Við höfum farið mjög rækilega yfir það. Menn geta þess vegna dregið það í áraraðir að greiða dagsektir og um leið og úrbætur eru gerðar á leikvelli, segjum t.d. eftir 2–3 ár, falla dagsektir niður. Það er nær að taka á slíkum atriðum ef menn ætla að gera þessi lög skilvirkari. Það er óþolandi fyrir þá sem eru í samkeppni og fara eftir öllum reglum að vita af því að samkeppnisaðili fer eftir helmingnum af þeim. Þess vegna er það í rauninni hagur atvinnulífsins að reglurnar séu skýrar og einfaldar og eins hið innra eftirlit — það er nú eitt sem hefur dottið inn í þessar reglugerðir og lög, eitthvert tískufyrirbrigði sem allt átti að laga.

Nú gleyma menn því gjarnan að íslensk fyrirtæki eru oft mjög lítil og það er jafnvel verið að búa til eitt skrifstofustarf í þeim. Ef ákveðnar verklagsreglur eru teknar upp í fyrirtækjum geta þær skilað meiru en innra eftirlit. Síðan á að koma einhver aðili utan úr bæ og votta það og fyrirtækið fær mögulega afslátt af eftirlitsgjöldum. Það er hægt að ná fram mikilli hagræðingu í þessum eftirlitsiðnaði og einnig við leyfisveitingu fyrirtækja. Það hefur komið fram í umræðunni að lítið veitingahús, þar sem kannski starfa fjórir menn, þarf veitingaleyfi hjá sýslumanni og þá þurfa sveitarfélagið, heilbrigðiseftirlit, eldvarnaeftirlit og vinnueftirlit að votta það. En síðan þarf það leyfi hjá heilbrigðisnefnd.

Hér má einnig nefna tóbakssöluleyfi, það er enn eitt leyfið, og vínveitingaleyfi — sannkölluð pappírshringekja. Það er óþarfi að hæstv. umhverfisráðherra beiti sér fyrir því að búa til millistykki af þessari gerð, sérstaklega í ljósi þess að íslensk fyrirtæki eru smá og eins eru sveitarfélögin æðimisjafnlega stödd. Það gæti orðið mjög dýrt fyrir sveitarfélög í hinum dreifðu byggðum að fá vottaðan aðila langt að til að taka út rólur eða sandkassa. Menn þurfa aðeins að hugsa sinn gang og beina sjónum að því að hver og einn ráðherra er með sitt eftirlitsbatterí. Það hlýtur að vera hægt að fara yfir þessa starfsemi og færa hana í auknum mæli til sveitarfélaganna.