133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:13]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ekki undarlegt þó að menn taki hér til umræðu atvinnumál vítt og breitt um landsbyggðina. Nýverið var Árni Mathiesen kosinn til að leiða lista sjálfstæðismanna á Suðurlandi, sá maður sem staðið hefur fyrir mestri aðför að sjávarbyggðum þessa lands í gegnum kvótakerfið, og það er ekkert skrýtið þó að þorpin umhverfis landið leiti að einhverjum möguleikum til þess að festa undir byggðina þegar stór hluti atvinnuréttarins hefur farið þaðan burtu. Þetta skyldu menn hafa í huga þegar þeir tala um orkumál og orkunýtingu og atvinnumál almennt.

Þau landsvæði sem hafa mikla orku og þar sem orku má að öllum líkindum finna til nýtingar í m.a. stóriðnaði horfa til þess að eitthvað megi koma í staðinn fyrir það sem ráðherrann hefur tekið. Þess vegna er það auðvitað þannig að m.a. í Þorlákshöfn og á Húsavík horfa menn til þess ef orka er nærri sem megi nota í einhverjum tilgangi til þess að byggja undir byggðina. Það þarf enginn að undrast það eins og málum er komið víða á landsbyggðinni.

Hitt er svo annað mál að ríkisstjórnin hefur ekki haft neina sérstaka markverða stefnu í þeim málum hvernig eigi að nýta orkuna og hversu margir eigi að fara inn í álframleiðsluna. Er það alveg sjálfgefið að allir sem ætla að fara að nýta orku landsins stefni henni til álframleiðslu og að allir hengi sig á sama markaðinn? Ég tel það varhugavert, hæstv. forseti