133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:10]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 frá 2. minni hluta fjárlaganefndar en auk mín eru á þessu nefndaráliti hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Helgi Hjörvar, Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Bjarnason.

Ég vil í upphafi, í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað og ræðu hv. formanns fjárlaganefndar, geta þess að mér þykir dálítið merkilegt og hef gaman af því að menn séu farnir að sveigja af þeirri braut að halda því fram að hér ríki efnahagslegur stöðugleiki og farnir að ákalla þjóðina um að kjósa sig aftur vegna þess að það sé svo mikilvægt að hér ríki pólitískur stöðugleiki. Það er sniðugt að setja stöðugleikann svona í nýjan búning vegna þess að það er alveg ljóst að það eru engar forsendur til þess að halda því fram lengur að hér ríki einhver efnahagslegur stöðugleiki. Í rauninni má segja að afleiðingar hins pólitíska stöðugleika, sem hér var lýst svo ágætlega, séu hæsta verðbólga sem við höfum séð hér í fjölda ára, hæstu vextir í heimi og viðskiptahalli sem hefur aldrei verið hærri en akkúrat núna. Þetta, virðulegi forseti, varð ég að nefna í upphafi máls míns vegna þess að þetta hefur auðvitað haft gríðarleg áhrif á heimilin og fólkið í landinu. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur frá þeim pólitíska stöðugleika sem hér er verið að boða.

Virðulegi forseti. Eins og svo oft áður kemur nú berlega í ljós að lítið er að marka fjárlög ársins. Bæði gjöld og tekjur fara langt fram úr því sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um rúmlega 14,3 milljarða kr. Að auki eru við 2. umr. og nú í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar lögð til tæplega 4,9 milljarða kr. aukin útgjöld ofan á það. Með samþykkt þessa frumvarps og breytingartillagna aukast fjárheimildir ársins um 19,2 milljarða kr. á árinu 2006 og það nemur um 6% af fjárlögum.

Tekjur ríkissjóðs eru líka verulega vanáætlaðar í fjárlögum ársins 2006 og verða mun meiri en gert var ráð fyrir. Þannig er gert ráð fyrir rúmlega 40 milljörðum kr. í auknar tekjur í frumvarpinu og rúmlega 4 milljörðum kr. til viðbótar samkvæmt breytingartillögum 1. minni hluta fjárlaganefndar. Frávikið þarna nemur um 13% af fjárlögum.

Virðulegi forseti. Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem málum er þannig háttað og vekur þetta upp spurningar um þær forsendur sem tekjuhlið fjárlaganna er byggð á. Eins og fyrri daginn eru talsverð frávik á milli þeirra forsendna sem lagt var af stað með og þess sem raunin verður. Ekki síst er alvarlegt að sjá hversu mikið viðskiptahallinn hefur vaxið og hefur hann sjaldan verið meiri, enda er útflutningur minni á árinu en reiknað var með en innflutningurinn mun meiri.

Til að fara yfir breytingar og frávikin á helstu þjóðhagsstærðum og magnbreytingar á þeim má nefna það hér að fjárfesting er t.d. 7,5% meiri. Þær forsendur sem gert var ráð fyrir við fjárlög árið 2006 voru að fjárfesting yrði 0,8% en áætluð niðurstaða í ár er 8,3%. Þetta er gríðarleg breyting og sýnir sig í þeim halla sem við erum með á viðskiptum. Það er farið yfir fleiri slíkar breytur í þessu nefndaráliti í töflu sem gefur skýra mynd af því. Þetta segir okkur að enn og aftur eru forsendur fjárlagafrumvarpsins brostnar innan árs eftir að þær eru lagðar fram.

Þótt það liggi í hlutarins eðli að afla þurfi tekna til að standa undir meiri útgjöldum skiptir máli hvernig skattbyrðin leggst á almenning og fyrirtæki. Rétt er að benda á að mikið af þessum auknu tekjum sem koma til í þessu fjáraukalagafrumvarpi er vegna skatts á einstaklinga. Það er rétt að benda á í þessu sambandi að þær skattalækkanir sem meiri hlutinn á Alþingi hefur ráðist í hafa einungis skilað sér til þeirra sem mestar hafa tekjurnar en ekki til þeirra sem hafa þær lægstar. Aðrir hafa nefnilega orðið fyrir verulega aukinni skattbyrði og þá ekki síst þeir sem lægstar hafa tekjurnar.

Í þessu sambandi þykir mér mikilvægt að minna á svar fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um þróun tekjuskatta á einstaklinga og skattbyrði. Þar kemur akkúrat þetta fram þannig að það er ekki hægt að halda öðru fram. Þetta stendur í gögnum frá fjármálaráðuneytinu sem voru lögð fyrir þingið sem svar við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um þróun skatta hér á landi. Það liggur alveg ljóst fyrir og á að vera hverjum manni ljóst að hér hefur skattbyrðin lagst í auknum mæli á þá sem lægstar hafa tekjurnar meðan þeir einu sem hafa fengið einhverjar skattalækkanir eru þeir sem hæstar hafa tekjurnar.

Virðulegi forseti. Þessi aukna skattbyrði og þá kannski ekki síst á tekjur eldri borgara — af því að við vorum að ræða þá hér áðan — hefur dregið úr kaupmáttaraukningu til mjög margra hópa og ekki síst þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Það eru þessar aðgerðir sem ráðist var í við skattalækkanir. Þetta skiptir máli fyrir þessa umræðu þar sem staðreyndin er sú að ríkið vanáætlar verulega tekjuskatta á fólkið í landinu.

Ég fór yfir tölur áðan um hvernig kaupmáttaraukningunni hefur verið misskipt. Það er kannski óþarfi að endurtaka það hér en mig langar samt að hlaupa á þessum helstu stærðum vegna þess að ríkisstjórnin hefur síendurtekið nefnt að hér hafi verið 50–60% kaupmáttaraukning. Fræðimenn hafa gert úttektir á því og sömuleiðis Félag eldri borgara um hvernig þróun kaupmáttar hefur verið á þeim tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið. Niðurstöður úr þessum úttektum eru þær að þau 10% þjóðfélagsþegna sem hafa hæstu tekjurnar hafa fengið 77,8% kaupmáttaraukningu eftir skatt og þau 10% sem eru lægst hafa fengið 26,6%. Ofan á þetta bætist að á næsta ári er gert ráð fyrir, og þetta erum við með á blöðum frá Félagi eldri borgara, að dæmigert verði fyrir þann þriðjung eldri borgara sem lægstar hafa tekjurnar að kaupmáttaraukningin sé einungis 16%. Þessu verðum við að halda til haga vegna þess að öll umræðan um það hvernig við ætlum að fara í skattalækkanir og hvernig við tökum inn tekjur til ríkisins snertir á þessum þáttum, hún hefur áhrif á kaupmátt fólks í landinu.

Virðulegi forseti. Í fjáraukalögum fyrir árið 2006, þeim fjáraukalögum sem við erum að ræða hér, birtist enn og aftur sú lausung sem þessi ríkisstjórn hefur tamið sér í umgengni við lög um fjárreiður ríkisins. Lögð eru til útgjöld sem ekki eiga heima í fjáraukalögum samkvæmt fjárreiðulögum. Í lögum um fjárreiður ríkisins er skýrt kveðið á um tilgang fjáraukalaga. Þar segir í 44. gr., með leyfi forseta:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.“

Í frumvarpinu nú eru fjölmargir liðir sem alls ekki falla undir þessa grein fjárreiðulaganna og ættu betur heima í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 sem nú liggur fyrir Alþingi. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að í fjáraukalagafrumvörpum undangenginna ára og nú í ár eru verkefni sem alls ekki ættu að vera þar og ættu heima, ef vinnubrögð hér væru eðlileg, í fjárlögum fyrir árið 2007 en ekki í fjáraukalögum fyrir árið 2006. Það eru fjölmörg dæmi um þetta í þessu fjáraukalagafrumvarpi og líka í breytingartillögum sem lagðar eru fram hér við 2. umr., breytingartillögum við fjáraukalagafrumvarpið. Má t.d. nefna byggingu reiðhalla sem á að kosta 330 millj. kr. (Gripið fram í.) Ég get nefnt hér líka, fyrst ég er að fjalla um liði landbúnaðarráðuneytisins, breytingartillögu upp á 2,5 millj. kr. til ritunar íslenskrar landbúnaðarsögu og er áætlað að það rit verði gefið út árið 2008. Við erum með liði á menntamálaráðuneytið í breytingartillögum þar sem lagðir eru til auknir fjármunir til atburðar sem á að verða 16. nóvember 2007.

Virðulegi forseti. Ég er ekki með þessu að leggja neitt mat á þessi verkefni sem slík, alls ekki, þetta eru án efa allt góð og gild verkefni, þetta er bara spurning um vinnubrögð og hvernig þessi meiri hluti fjárlaganefndar umgengst fjárreiðulögin. Engin þessara verkefna sem ég nefndi eða önnur sem er að finna í þessum fjáraukalögum eru einhver neyðarverkefni, einhver sem þarf að bregðast við með það skjótum hraða að ekki megi ræða þau í eðlilegum farvegi, þ.e. í umræðum um fjárlög fyrir árið 2007. Ég held að málunum væri betur fyrir komið ef þau væru rædd með því frumvarpi.

Það skiptir máli að við tökum ekki inn í fjáraukalög verkefni sem gætu verið í fjárlögunum. Fjárlögin verða að vera skýr rammi utan um þau verkefni sem ríkisstjórnin vinnur að hverju sinni. Við vitum að fjáraukalögin hafa skekkt þá mynd allverulega á undanförnum árum.

Það má einnig nefna dæmi um að í nokkrum tilfellum er verið að bæta uppsafnaðan rekstrarvanda hjá stofnunum ríkisins sem ættu með réttu að koma inn á fjárlög næsta árs ef rétt væri að málum staðið. Fór hv. þm. Einar Már Sigurðarson ágætlega yfir það í andsvari. Er það afar tilviljanakennt hvaða stofnanir fá slíkar leiðréttingar á fjáraukalögum á hverjum tíma. Þetta vinnulag verður auðvitað að laga svo að það sama gildi fyrir allar stofnanir ríkisins og einnig svo að hægt sé að taka heildstætt á málum stofnana sem búa við viðvarandi rekstrarvanda. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur samþykkt þessar tillögur ríkisstjórnarinnar til 2. umr. sem sýnir að enn ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að samþykkja þessi vinnubrögð og þessa kæruleysislegu umgengni við lög um fjárreiður ríkisins. Minni hlutinn í fjárlaganefnd hefur gagnrýnt þetta ár eftir ár og oft hafa heyrst raddir innan úr stjórnarmeirihlutanum um að vissulega sé rétt að fara að taka á þessu en það er aldrei gerður nokkur skapaður hlutur í því. Þessi vinnubrögð skekkja heildarmyndina.

Þegar farið er yfir stöðu einstakra stofnana á vegum ríkisins koma í ljós mikil frávik frá fjárlögum. Ég vil í þessu sambandi vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2005 sem kom út núna í lok sumars. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að fjárlög hvers árs, sem samþykkt eru af Alþingi, feli í sér heimildir sem ráðuneytum og stofnunum beri að virða. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Þá hefur stofnunin ítrekað bent á að mikil frávik frá fjárlögum ár eftir ár séu til marks um meira agaleysi í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga hér á landi en tíðkast í löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við. Frávikin hafa að meðaltali verið um 15 til 20% undanfarin ár og er fjárlagaárið 2005 engin undantekning. Slík frávik þekkjast ekki í nálægum löndum.“

Við í minni hluta fjárlaganefndar teljum að mikilvægt sé að á þessu verði tekið í eitt skipti fyrir öll. Það er verið að of- eða vanáætla verulega á stofnanir ár eftir ár sem sýnir hversu lítill metnaður er í fjárlagagerðinni. Síðan er endrum og sinnum skotið inn í fjáraukalögin handahófskenndum leiðréttingum á stöðu einstakra stofnana. Þessi vinnubrögð ganga ekki.

Ég vil halda áfram að vitna til skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2005. Þar kemur fram að fjárlagaliðir sem farið hafa 4% fram úr heimildum og fjárlagaliðir sem eiga 4% eða meira ónýtt séu um 68%. 68% fjárlagaliða eru með 4% eða meira í frávik og það sem meira er, um þrír fjórðu þessara 68% eru með meira en 10% frávik.

Þessi samantekt, virðulegi forseti, varpar skýru ljósi á það hvernig fjárlagagerðin er orðin. Svona eru hlutirnir látnir malla í gegnum árin og meiri hluti Alþingis hefur blessað það með stimpli sínum. Fjárheimildir og uppsafnaður vandi eru látin flæða milli ára þannig að alla yfirsýn vantar og þetta hefur leitt til þess að fjárlög ríkisins eru orðin marklaust plagg í stað þess að vera sá skýri rammi um rekstur ríkisins sem þau eiga að vera. Vegna þessa alls eru fjárlögin auðvitað ónýtt verkfæri við stjórn efnahagsmála. Ríkisstjórnin hefur með þessari kæruleysislegu umgengni sinni um fjárlögin sýnt að það eigi ekki að nota ríkisfjármálin sem eitt af stýritækjunum í efnahagslífinu sem fyrrverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson lýsti þó meira að segja yfir í ræðu á fundi hjá Seðlabankanum. Það er augljóst að þessari stefnu hefur verið framfylgt fyrr sem nú og það er ekki að sjá að neinar stefnubreytingar séu fyrirhugaðar í þeim efnum. Ekki á að nota fjárlögin sem stýritæki í efnahagslífinu.

Fjárlögin geta auðvitað ekki orðið almennilegt stýritæki ef heimildir velkjast aftur og aftur á milli ára. Fjárlögin eiga að veita skýrt yfirlit yfir hvert ár fyrir sig svo að vel megi vera.

Það er ekki hægt að fara yfir fjáraukalögin öðruvísi en að ræða örlítið um kaupin á hlut sveitarfélaga í Landsvirkjun og hvernig það mál allt hefur komið inn til þingsins. Nú á milli 1. og 2. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2006 kemur ríkisstjórnin til fjárlaganefndar og fer fram á heimild, sem núna er lögð fram af meiri hluta fjárlaganefndar, fyrir 26,9 milljarða kr. lántöku vegna kaupa ríkissjóðs á eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Áður en þessi ósk um heimild fyrir 26,9 milljarða kr. lántöku kom til var kominn inn í fjáraukalagafrumvarpið, inn í 6. gr. sem er heimildargrein, liður sem felur í sér heimild ríkisins til að kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

Þetta hljóta að teljast afar sérkennileg vinnubrögð vegna þess að samningurinn um kaupin hefur ekki verið lagður fyrir fjárlaganefnd. Hins vegar hefur heimildaróskin verið lögð fram í þinginu en engin gögn hafa fylgt þrátt fyrir að beðið hafi verið um þau. Það hlýtur að teljast sérkennilegt að það er búið að gera samninginn en ekki búið að veita heimildina fyrir kaupunum. Ósk um heimild fyrir lántökunni út af kaupunum kemur eftir á. Þetta er dálítið — ja, hvað á maður að segja? — þetta eru sérkennileg vinnubrögð svo að vægt sé til orða tekið.

Auðvitað verða menn að fara með svona stóra samninga í gegnum þingið með eðlilegum hætti þannig að ekki skapist deilur um málið í heild sinni. Auðvitað er það algjörlega óháð því hvort það sé pólitískur ágreiningur um kaupin sem slík. Það er alltaf réttara að samningurinn um kaupin fari rétta leið í gegnum Alþingi áður en lánsheimildir til kaupanna eru afgreiddar í fjáraukalögum. Ég vil líka nefna hvort ekki hefði verið rétt að ræða þetta sem hluta af fjárlögum fyrir árið 2007. Samningurinn á eftir að koma hér til umræðu og heimildin hefur ekki verið fengin. Mig langar í þessu sambandi að tæpa aftur á 6. gr. sem varðar sem sagt heimildarákvæði til ríkisins til að kaupa og selja hina ýmsu þætti. Það er með hreinum ólíkindum hvað þessi grein er ofnotuð af ríkisstjórninni til þess að reyna að lauma risastórum málum bakdyramegin inn í þingið.

Það má samt ekki bara skammast og því vil ég taka fram að fulltrúar meiri hlutans í fjárlaganefnd hafa einmitt líka haft á orði að það þurfi að fara að skoða hvernig þessi 6. gr. er notuð.

Manni hlýtur að blöskra þegar maður horfir upp á það, eins og hér er lagt til í fjáraukalögum með þessu heimildarákvæði, þ.e. 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2006, að þar verði bætt inn heimild til að kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun — og svo kemur óskin um fjárheimildina upp á 27 milljarða kr.

Annað dæmi vil ég nefna sem stingur í augu og mér finnst ekki eðlilegt. Í fjáraukalagafrumvarpinu er lagt til að heimild verði gefin til þess að leggja hlutafélaginu Matvælarannsóknum til stofnfé. Hvað þýðir þetta? Af hverju koma menn ekki bara með upphæðir inn í fjárlög í staðinn fyrir að koma með þær inn í gegnum fjáraukalög í fjárlög ársins í ár? Það hefði verið miklu eðlilegra að gera það með þeim hætti.

Þegar þessari fjárlagavinnu lýkur vonast ég til þess að það verði góð samstaða í fjárlaganefnd um að taka á því hvað menn beita þessari 6. gr., heimildargreininni, frjálslega til að komast hjá því að taka alvarlega umræðu í fjárlaganefnd.

Hér eru fjölmörg fyrirséð útgjöld í fjáraukalagafrumvarpinu og í breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar sem voru þekkt þegar við afgreiddum fjárlögin fyrir árið 2006. Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á nokkur þeirra atriða hér áðan. Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 er óskað eftir 60 millj. kr. fjárveitingu til Háskólans á Akureyri. Minni hlutinn á Alþingi hefur ítrekað bent á að auka þurfi fjárframlög til háskólastigsins og lögðu fulltrúar minni hlutans fram breytingartillögu um framlög til háskóla í umræðum um og við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006. Ein þeirra tillagna var einmitt hækkun á framlagi til Háskólans á Akureyri um 100 millj. kr. vegna fyrirséðs vanda sem skólinn var kominn í. Ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi felldi þá breytingartillögu. Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom hér upp áðan og reyndi að drepa þeirri staðreynd á dreif með því að halda því fram að hér hafi stjórnarandstaðan verið eitthvað tvístruð í því máli. Það er bara alls ekki þannig. Ég er hérna með breytingartillöguna (Gripið fram í.) frá því í fyrra og á henni, virðulegi forseti, eru allir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem sæti eiga í fjárlaganefnd. Hún er lögð fram af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, Einari Má Sigurðarsyni, Helga Hjörvar, Katrínu Júlíusdóttur og Jóni Bjarnasyni. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að hér sé málum drepið á dreif með þessum hætti og vera þannig á harðahlaupum frá því að auðvitað átti að taka á þessu máli við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006 en ekki koma síðan með skottið á milli lappanna í fjáraukalögum eins og gert er nú. Mér finnst þetta skýrt dæmi um skipulegar vanáætlanir ríkisstjórnarinnar á mjög mikilvægum fjárlagaliðum.

Annað dæmi sem ég vil nefna, virðulegi forseti, er að í frumvarpinu er einnig óskað eftir 240 millj. kr. hækkun á óskiptan lið framhaldsskóla og núna hefur í breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar verið bætt þar við 10 millj. Þessi upphæð, 250 millj., sem núna er óskað eftir kemur manni bara alls ekki á óvart. Fulltrúar minni hlutans í fjárlaganefnd lögðu til við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006 að þessi liður, Framhaldsskólar, óskipt, yrði hækkaður um 250 millj. kr. Sú tala var ekkert úr lausu lofti gripin vegna þess að það lá fyrir í fjárlögum fyrir árið 2006 að menntamálaráðuneytið vanáætlaði með vitund og vilja nemendafjölda í framhaldsskólum landsins. Þessi vinnubrögð hafa verið algjörlega ólíðandi í gegnum tíðina og þetta er gert ár eftir ár.

Þessa breytingartillögu upp á 250 millj. frá stjórnarandstöðunni felldi ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi en kemur svo með nákvæmlega sömu upphæð inn í fjáraukalögin. Þetta eru auðvitað ekki vinnubrögð, virðulegi forseti. Maður hlýtur að undrast þegar kemur að framlögum til algjörlega fyrirséðra útgjalda — þetta eru bara tvö dæmi — hvað hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutanum hér á Alþingi gengur til þegar skipulega eru vanáætlaðir liðir og síðan er komið með þá inn í fjáraukalög. Við þurfum að fara að fá einhver svör við því.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri atriði sem ég vil nefna áður en ég lýk máli mínu. Í tillögu ríkisstjórnarinnar nú við 2. umr. um fjáraukalög 2006 er lögð til hækkun um 200 millj. kr. vegna vaxtabóta. Sú fjárhæð er til komin vegna frumvarps fjármálaráðherra sem liggur fyrir þinginu um hækkun á eignaviðmiði sem liggur til grundvallar útreikningi á vaxtabótunum. Með þessari upphæð er ætlað að bregðast við þeirri miklu hækkun sem orðið hefur á fasteignaverði sem hefur leitt til hækkunar á eignarhlut fasteignareigenda í húsnæði. Mér finnst mjög mikilvægt að benda á í þessu samhengi að hér er ekki nóg gert. Það er mjög mikilvægt að benda á að í sumar gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu í tengslum við samkomulag sem varð milli aðila vinnumarkaðarins en í henni var kveðið á um aðgerðir til að bæta launafólki í landinu upp kaupmáttarskerðingu sem það hefur orðið fyrir, m.a. vegna hárrar verðbólgu. Í þeirri yfirlýsingu var lofað úrbótum á vaxtabótakerfinu vegna þeirrar miklu hækkunar á húsnæðisverði sem hafði leitt til mikilla skerðinga á vaxtabótum hjá íslenskum launþegum. Auk þessara miklu skerðinga féllu vaxtabæturnar niður hjá, að því er upplýsingar í fjölmiðlum herma, um 10 þúsund launþegum núna í ár, 10 þúsund launþegar fengu ekki vaxtabætur sem höfðu fengið þær árið áður.

Áætlað var á síðasta ári að óbreytt ástand mundi færa ríkissjóði um 700 millj. kr. í auknar tekjur. Síðan kom í ljós þegar álagningarskrár höfðu verið birtar í sumar að um 300 millj. kr. gengu ekki út, 300 millj. sem áætlaðar voru fyrir þetta ár, og standa því eftir á þessu fjárlagaári óráðstafaðar. Núna er sem sagt gert ráð fyrir því að bætt verði við 200 millj. kr. samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, (Gripið fram í.) 200 millj. kr. þannig að heildarfjárhæðin sem á að úthluta til þessara 10 þúsund einstaklinga sem misstu vaxtabæturnar og hinna sem fengu skertar vaxtabætur, sem var líka stór hópur, um 500 millj. kr. Virðulegi forseti. Þarna vantar a.m.k. 200 millj. kr. sé miðað við forsendur ársins í ár.

ASÍ hefur mótmælt þessu vinnulagi ríkisstjórnarinnar harðlega og miðstjórn ASÍ ályktar á fundi 18. október um þetta efni. Við höfum ályktunina líka með í nefndaráliti vegna þess að hún skiptir máli og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa hana. Þetta er stutt og snörp ályktun sem segir allt sem segja þarf. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta.

„Mikil hækkun fasteignaverðs á síðasta ári leiddi til þess að vaxtabætur margra skertust verulega. Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í sumar lofaði ríkisstjórnin að leiðrétta skerðinguna. Jafnframt voru gefin fyrirheit um að haft yrði náið samráð við ASÍ um útfærslu leiðréttinganna.

Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ákvæðum laga um vaxtabætur án samráðs við ASÍ. Frumvarpið, sem er samhljóða tillögum sem ASÍ hafnaði í viðræðum við ríkisstjórn í sumar, tryggir engan veginn leiðréttingu á þeirri skerðingu sem margir urðu fyrir vegna hækkaðs fasteignaverðs. Miðstjórn ASÍ lýsir furðu sinni á þessum vinnubrögðum og krefst þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð.“

Virðulegi forseti. Þarna er alveg ljóst að ASÍ telur að verið sé að svíkja samkomulag sem gert var um fullt samráð hvað þessi mál varðaði. Það er mjög alvarlegt, og mikilvægt að taka það upp hér þegar við ræðum þær fjárhæðir sem eiga að fara til þeirra breytinga á vaxtabótunum sem lagðar eru til hér í þinginu. Það er alveg ljóst að fyrir utan þær skerðingar sem fólk hefur orðið fyrir út af breyttu eignaviðmiði heldur ríkisstjórnin enn áfram að skerða vaxtabæturnar. Eftir stendur að ríkisstjórnin hefur, þegar og ef þessar 200 millj. verða samþykktar, skert vaxtabætur frá árinu 2003 um 1,2 milljarða kr. á verðlagi dagsins í dag. Í nefndarálitinu bendir 2. minni hluti fjárlaganefndar á að líklega hafi vaxtabæturnar aldrei frá því að vaxtabótakerfið var tekið upp verið mikilvægari fyrir íslensk heimili en nú þegar há verðbólga leggst á húsnæðislánin í gegnum verðtrygginguna. Það hefur þyngt verulega róður íslenskra heimila. Það er mikilvægt að halda því til haga. Ég nefndi áðan tvo liði sem minni hlutinn hafði lagt fram breytingartillögur við við umræðu um fjárlög fyrir árið 2006 sem síðan líta dagsins ljós hér í tillögum meiri hlutans við fjáraukalögin. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að fulltrúar minni hlutans lögðu til við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006 að vaxtabæturnar yrðu hækkaðar um 600 millj. kr. til að mæta þeirri skerðingu sem var fyrirséð — og menn eru að reyna að bjarga fyrir horn núna með allt of lágum hækkunum á eignaviðmiðinu og í ósamkomulagi við ASÍ. Þetta framlag var bæði ætlað til þess og til þess að hækka aftur og skila þeim til baka með skerðingum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á vaxtabótunum á undanförnum árum.

Það er leitt til þess að hugsa og leitt um það að tala að hér er ekki um neitt annað að ræða en svik á svik ofan, svik við heimilin í landinu og svik við launþega í landinu.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt fleira í þessu frumvarpi sem væri ástæða til að gera athugasemdir við. Þær bíða þó 3. umr. þegar allar breytingartillögur ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar liggja fyrir og heildarmynd verður komin á frumvarpið. Má þar nefna að stór og mikilvægur kafli stendur eftir algjörlega óræddur sem varðar þá liði sem snúa að fjárframlögum til heilbrigðisstofnana. Meiri hluti nefndarinnar hefur ákveðið, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson greindi frá áðan, að geyma þá umræðu í nefndinni þar til eftir þessa 2. umr. og þá fyrir 3. umr. þannig að stórir hlutar eru enn þá óræddir. Ég furða mig samt á því að hér hafi engu að síður verið lagðar fram breytingartillögurnar fyrir 2. umr. af meiri hlutanum. Ég vona þó að við eigum eftir að eiga um frumvarpið gott samstarf, að fara í gegnum heilbrigðisstofnanirnar og öldrunarstofnanir og að þar verði gerð góð bragarbót á.

Virðulegi forseti. Ég vil segja hér í lokin að margoft hefur verið bent á að til þess að fjárlaganefnd hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er verður að tryggja að við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga liggi fyrir áætluð fjárhagsstaða stofnana við lok hvers árs. Á þessu hefur verið mikill brestur og við höfum gagnrýnt það ítrekað og eins og ég kom inn á áðan er mjög tilviljanakennt hvernig og hvort og hvenær þá slíkar upplýsingar eru lagðar fyrir nefndina. Vil ég nefna hér að slíkar upplýsingar ættu auðvitað að vera fylgiskjal með fjárlagafrumvarpi svo að staða allra stofnana liggi fyrir við afgreiðslu þess. Í stað þess að fara tilviljanakennt í leiðréttingar eins og gert er nú á þessi staða auðvitað að liggja fyrir svo að hægt sé að fara heildrænt yfir málin og allar stofnanir sitji við sama borð í þeim efnum og að staða þeirra sé uppi á borðinu þegar menn ræða það mikilvæga frumvarp sem fjárlagafrumvarpið er.

Eftirlitshlutverk fjárlaganefndar er gríðarlega mikilvægt. Framkvæmd þessa eftirlits hefur þó verið lítil sem engin og teljum við það allri fjárlagavinnu Alþingis til mikils vansa. Blekkingarleikur með fjárlög hefur einkennt þá ríkisstjórn sem nú situr og því miður hefur meiri hluti Alþingis ekki viljað efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Meðan svo er má búast við heldur marklitlum fjárlögum áfram sem einungis er ætlað að bregða upp óraunhæfum glansmyndum af stöðu ríkissjóðs í staðinn fyrir að birta raunveruleikann eins og hann er og ræða raunveruleikann eins og hann er. Það er alltaf mikilvægt. Það er líka mikilvægt, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, á kosningaári. Þó að það séu að koma kosningar er mjög mikilvægt að alþingismenn sem bera mikla ábyrgð ræði raunveruleikann eins og hann nákvæmlega er og kippi niður glansmyndunum í stað þess að fara í einhvern skrautbúning rétt fyrir kosningar. Það skiptir máli fyrir fólkið í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og hef greint frá nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Eins og áður sagði eru auk mín á þessu nefndaráliti þeir hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Helgi Hjörvar, Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Bjarnason