133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:10]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við náum ekki að ræða þessi má til enda hér en ég ætla að draga fram nokkrar staðreyndir. Svokallaður gini-stuðull sem mælir afkomu fólks og ójöfnuð í þjóðfélaginu hefur greinilega sýnt að ójöfnuður fer vaxandi. Samantekt Stefáns Ólafssonar um skattkerfið hefur greinilega sýnt að þeir sem eru í tveimur lægstu skattþrepunum greiða hlutfallslega hærri skatta en þeir gerðu áður. Það sýnir jafnframt að þeir sem eru í hæstu þrepunum greiða lægri skatta en þeir gerðu áður. (EOK: Þetta er fölsun.) Já, já, auðvitað er allt fölsun sem passar ekki við málflutning hv. þingmanns, ég skil það ósköp vel. En það þýðir ekki að tala svona, hv. þingmaður. Staðreyndin er einfaldlega sú að þjóðfélag okkar þróast í þessa átt og það er bara að berja hausnum við steininn — eða réttara sagt að stinga hausnum í steininn, eins og maðurinn sagði — þegar menn láta svona.