138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um ummæli hennar um að Hafrannsóknastofnun hafi ekki áhyggjur af þessum aukna afla í skötusel. Hún sagði það hér áðan úr ræðustól að svo virtist vera. Hafrannsóknastofnun hefur alltaf haft áhyggjur af því ef farið er umfram ráðgjöf þeirra og ber að minnast þess að aflaráðgjöfin varðandi skötusel var lækkuð úr 3.000 tonnum í 2.500. Það var það byggt á haldbærum rökum að þeirra mati. Ég vil heyra frá hv. þingmanni hvaða skýringar hún hefur á þessum ummælum sínum.

Varðandi frjálsar vísindaveiðar sem hún leggur til, langar mig að heyra í örstuttu máli útfærslu á þeim þætti og þá hvort taka eigi þessar vísindaveiðar af núverandi aflaheimildum eða beita aðferð hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem kemur fram í þessu frumvarpi, um að hreinlega verði bætt við núverandi aflaheimildir. Hversu miklu magni vill hún sjá að verði varið í þessa svokölluðu vísindaveiðar? Getur hv. þingmaður gefið okkur skýringar á því að þegar hún segist ekki vera á móti því að draga úr leiguframboði en vilji koma í veg fyrir brask? Ég vil minna hv. þingmann á að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur framsalið og þar með leiguna í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi vera einn aðalgrunninn að hagkvæmni þessa kerfis og mikilvægi þess fyrir þjóðarbúið. Um það verður ekki deilt að hér hefur tekist betur til en í mörgum öðrum löndum — í flestum öðrum löndum. Ég vil fá skýringar hjá hv. þingmanni á því hver munurinn er í hennar huga á því þegar verið er að tala um brask eða framsal, þar sem verið er að leigja aflaheimildir með eðlilegum hætti innan núverandi fiskveiðistjórnarkerfis.