138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi beint einum sex spurningum til hæstv. ráðherra og hann komst yfir eina, því miður. Það verður því að bíða betri tíma hjá hæstv. ráðherra og væntanlega fer hann í sinni lokaræðu yfir hinar spurningarnar sem ég beindi til hans.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þá hugmynd að draga úr heimild á flutningum á aflaheimildum á milli ára og þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram m.a. hjá forsvarsmönnum Fisk Seafood sem er í Skagafirði og skapar 230 manns atvinnu þar og hefur verið eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum í sjávarútvegi sem hefur mátt þola líka ofan á þetta gríðarlegan samdrátt í aflaheimildum. Það sem forsvarsmenn þessa félags hafa gert er að nýta þessa heimild til að og með það að markmiði að sem flestir starfsmenn haldi atvinnu, að það sé hægt að halda uppi stöðugri atvinnu hjá fyrirtækinu og líka að fyrirtækið geti verið með ákveðinn sveigjanleika þegar kemur að afhendingaröryggi á vörunni, því að að sjálfsögðu er þetta fyrirtæki að flytja út sjávarafurðir eins og önnur sjávarútvegsfyrirtæki. Lykilatriði í því er að geta tryggt það að aflinn sé afhentur á tilsettum tíma því að annars bitnar það á viðkomandi viðskiptasamböndum og þar af leiðandi á rekstri fyrirtækisins.

Það er mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra um þetta samráð, hvernig staðið var að frumvarpssmíðinni og hvort hæstv. ráðherra hafi tekið tillit til hagsmuna mörg hundruð einstaklinga sem vinna hjá fyrirtækjum eins og Fisk Seafood þegar kemur að þessum mikla samdrætti og hvort ráðherrann hyggist jafnvel taka sérstakt tillit til fyrirtækja í slíkum rekstri, sem sannarlega hafa reynt að veita fjölda fólks atvinnu, að (Forseti hringir.) og að svigrúm þeirra verði ekki skert eins mikið og raun ber vitni.