138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi víkja að í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Í fyrsta lagi varðandi það hver skilin eru á milli annars vegar þeirra verkefna sem ráðuneytið ræðst nú þegar í að vinna og hins vegar hlutverks hópsins, sem er skipaður til að endurskoða tiltekna þætti í fiskveiðistjórnarkerfinu, þá er það alveg skýrt og hefur alltaf verið mjög skýrt. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er einmitt kveðið á um brýnar aðgerðir í þeim efnum sem ráðuneytið snýr sér að svo fljótt sem verða má. Það er eins og að knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis, takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á aflaheimildum á milli ára, stofna auðlindasjóð, sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda, vernda grunnslóð, skipa ráðgefandi hóp útgerðarmanna og sjómanna og heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina. Þetta er allt saman tilgreint þarna. Verkefni starfshópsins var líka skilgreint, en honum er einmitt ætlað að taka á framtíðareignarrétti á aflaheimildum og með hvaða hætti útgerð fer með þá ráðstöfun og einnig byggðatengingarform eða hvernig menn skipta þessum málum upp til lengri tíma. Þarna eru alveg skýr mörk á milli.

Ég kemst nú ekki til að rekja spurningarnar, frú forseti, í þessu andsvari. En varðandi það sem hann vék að Frjálslynda flokknum, þá vil ég bara geta þess að undanfarin ár á þingi í stjórnarandstöðu, fluttum við, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn, mörg frumvörp saman um ákveðin tiltekin atriði í sjávarútvegsstefnunni. Þótt við eigum ekki samleið í öllum málum, þá áttum við samleið í mörgum málum og það er ekkert óeðlilegt þótt það sjáist í þeim tillögum sem lagðar eru fram að þessir flokkar hafa setið hér saman (Forseti hringir.) undanfarin nærri tíu ár, átta ár, og flutt saman frumvörp á Alþingi um sjávarútvegsmál.