138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort ég hafi áhyggjur af því að einstakar útgerðir muni einangrast þá hef ég þær í raun og veru ekki. Ef það horfir til þess held ég að menn verði þá bara að skoða það sérstaklega og taka til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar þar að kemur.

Það sem ég horfi kannski fyrst og fremst til varðandi þetta er að menn klári þennan pott, þessi 5.000 tonn sem þeir hafa fengið. Menn geti komið aftur og keypt meira, sé eitthvað eftir í pottinum.

Varðandi hvort mönnum sem hafa selt sig út úr greininni eigi að vera óheimilt að koma aftur að veiðum tel ég það ekki vera framkvæmanlegt. Það á einfaldlega að vera jafnræðisgrundvöllur gagnvart þessum atvinnuvegi. Mér finnst skipta gríðarlegu máli að þeir sem hafa áhuga á að nýta auðlindina hafi tækifæri til þess og geti þá keypt eða leigt til sín heimildir til þess frá ríkinu en ekki að einhverjir sem eru fyrir í kerfinu hagnist sérstaklega af því eða geti stjórnað því hverjir koma nýir að. Það finnst mér vera hið ósanngjarna í þessu.

Ég held að það sé hægt að ræða sig að niðurstöðu í þessum efnum. Mér finnst skipta mjög miklu máli og legg áherslu á að mér finnast þau skref sem hér eru stigin vera mjög varfærnisleg og engin ástæða til þess að taka þeim þannig að verið sé að ógna (Forseti hringir.) tilveru byggðanna í landinu.