138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara árétta það að öll þau atriði sem þarna eru talin upp eru hluti af heild og ber að skoða þau þannig og þarna koma þá rök og gögn inn í starfshópinn. Ef eitt reynist alveg fullkomlega ómögulegt og stangast á við öll hin atriðin sem talin eru upp, eru ekki líkur til þess að út í það verði farið. Menn verða bara að hafa þá heildarsýn að horfa á þetta sem hluta af heild en vera ekki niðurnjörvaðir við eitt atriði í þessum efnum.

Ég vil minna á það, frú forseti, hversu mikilvægt er einmitt að fara yfir þau atriði sem hafa skapað þessa ósátt. Ég hef minnt ítrekað á könnun sem Háskólinn á Akureyri gerði meðal ungs fólks í framhaldsskóla, milli 16 ára og tvítugs, þar sem það var spurt hvaða atvinnuveg það teldi að yrði mikilvægastur fyrir íslenska þjóð í framtíðinni. Þau nefndu sjávarútveg í fyrsta sæti og síðan kom ferðaþjónusta, landbúnaður og fleira, en sjávarútvegur var yfirgnæfandi í fyrsta sæti. En svo voru þau spurð að hvaða atvinnuvegi þau vildu helst beina menntun sinni eða starfa við og þá voru það innan við 2% sem nefndu sjávarútveg. Ég held að við þurfum öll að horfa í eigin barm varðandi þá ímynd sem þarna er á ferðinni. Þetta er einn stærsti, öflugasti og mikilvægast atvinnuvegur okkar, sá sem skapar okkur atvinnu og gjaldeyri, er grunnur að efnahagslífi og samfélagi vítt og breitt um landið og við þurfum að hafa aðra ímynd en speglast í þessari viðhorfskönnun. Ég er ekki að setja út á það að þetta unga fólk hafi metið þetta svo, ég er að setja út á okkur og þá sem hafa búið þessum mikla atvinnuvegi þá umgjörð að unga fólkið metur hann svo.

Ég held að við eigum að taka þetta mjög alvarlega, við eigum að fara ofan í það og skoða hvar þessir veiku hlekkir um (Forseti hringir.) höfuðatvinnuveg okkar eru sem þarf að bæta og styrkja, því að hann er jú það sem (Forseti hringir.) við munum byggja á núna til næstu og lengri framtíðar.