138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði m.a. til þess þegar ég settist í nefnd á vegum hæstv. sjávarútvegsráðherra til að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að ég fékk þá í hendurnar erindisbréf. Í því erindisbréfi var tilgreint hvað við skyldum fást við í nefndinni. Þar var ekki talað um að við ættum að fara fyrningarleið. Þar var ekki sagt að það væri hin gefna niðurstaða af starfi nefndarinnar. Þar var ekki sagt að það væri vegna þess að stjórnarflokkarnir hefðu fengið til þess umboð þjóðarinnar að knýja fram fyrningarleið, að við ættum að komast að þeirri niðurstöðu fyrir fram.

Þar var einfaldlega sagt að við ættum að kortleggja þessi mál og reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Ég er að halda því fram að meðan þessi óvissa ríkir, sem er fyrst og fremst að skaða atvinnugreinina og hefur áhrif, og einnig vegna þeirrar umræðu sem hefur farið hérna fram, að það er alls ekki ljóst hvort menn líta þannig á, fulltrúar stjórnarflokkanna, sem eru þeir sem veita nefndinni umboð í gegnum sjávarútvegsráðherra, að þessi niðurstaða sé gefin. Það er ekki verið að tala um að koma í veg fyrir umræðu um þessi mál, öðru nær. Við lítum þannig á að þetta sé eitt af þeim álitaefnum sem við erum að brjóta til mergjar og takast á við en við getum ekki fallist á að það sé hin eina gefna niðurstaða.