138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:56]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmönnum fyrir ágæta umræðu sem ég verð að segja að hefur að mestu leyti verið hófstillt, hefur farið fram af ágætri mildi og verið málefnaleg í langflesta staði. Ég verð að segja eins og er að ég tek ekki til mín þau ummæli sem féllu hjá hv. þm. Róberti Marshall, að hér hafi menn farið fram með einhverri gríðarlegri heift. Það var ekki svo, í það minnsta hvorki í mínum ræðum né þeirra ræðumanna sem eru skráðir hv. flutningsmenn þessarar tillögu.

Það sem mér fannst standa svolítið upp úr og vera áhugavert að heyra var það sem kom fram hjá hv. þingmönnum í stjórnarliði, m.a. hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að allar hugmyndir um fyrningarleiðina væru óútfærðar, það væri ekki búið að útfæra þessar leiðir. Nú vill þannig til, frú forseti, að við höfum verið að ræða í a.m.k. nokkra áratugi þessar fyrningarleiðir og þá spurningu hvar eignarhaldið liggur. Það er alveg furðulegt að ríkisstjórnin skuli lýsa því yfir með jafnskýrum hætti og hún gerir að farin verði fyrningarleið, að aflaheimildir frá útgerðinni verði kallaðar inn á 20 árum, bótalaust, komi svo hingað og segi: Við höfum bara ekki hugmynd um hvernig við ætlum að gera það. Og þegar spurt er einfaldrar spurningar eins og hvort hv. þingmaður telji líklegra að sjávarútvegurinn geti borgað skuldir sínar eða ólíklegra, verði þessi leið farin, sé því svarað þannig að menn hafi grafið sjálfa sig niður í einhvers konar hjólför og ofan í stríðsgrafir og í framhaldinu sagt: Enda er ekki búið að útfæra eitt eða neitt. Á sama tíma þarf sjávarútvegurinn, þessi mikilvæga atvinnugrein, að búa við þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þegar hv. þingmenn hafa hér í ræðustól ekki sagst skilja hvers vegna þessi tillaga sé flutt og finnst út í hött að farið sé fram á þetta við ríkisstjórnina er það gert af mjög gildri og góðri ástæðu. Það er vegna þess að akkúrat þetta ákvæði, stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, hefur þau áhrif sem ég og aðrir hv. þingmenn höfum lýst hér mjög skýrt. Þess vegna er ástæða til að flytja þingmál sem þetta til að skora á ríkisstjórnina að draga þetta til baka, til að láta reyna á hvort þingmeirihluti sé á Alþingi fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er sjálfsagt mál að láta reyna á það í jafnmikilvægu og -afdrifaríku máli og þessu.

Hvað varðar það sem kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls um að það sé óeðlilegt að menn hafi dregið þá ályktun sem hefur verið dregin, að það andi nokkuð köldu svo ekki sé meira sagt frá ýmsum stjórnarliðum til útgerðarmanna, er rétt að rifja upp að fyrir kosningarnar 2003 birti Samfylkingin blaðaauglýsingu með mynd af fremur verð ég að segja ógeðfelldum karli sem lá á vindsæng og átti sá karl að tákna íslenska útgerðarmenn sem lægju og hefðu það náðugt í sólinni meðan aðrir Íslendingar væru í vinnunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er nú ekki skrýtið þó að menn hafi haft á tilfinningunni að innan Samfylkingarinnar væru uppi ýmis sjónarmið sem vart væri hægt að lýsa sem skilningsríkum hvað varðaði stöðu íslensks sjávarútvegs svo ekki sé lengra gengið. Ég mótmæli því að það sé einhver tímaeyðsla af hálfu Alþingis og hv. þingmanna að ræða hvort það sé þingmeirihluti fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er algjörlega eðlilegt og ég minni hv. þingmann á ýmis þau ummæli sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa haft um mikilvægi Alþingis, um mikilvægi þess að mál séu hér rædd, um mikilvægi þingræðisreglunnar. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, öllum hv. þingmönnum á að vera ljóst hversu mikilvæg þingræðisreglan er og að það liggi þá fyrir í þessu máli að ríkisstjórnin hafi meiri hluta fyrir því vegna þess að þessi ákvörðun, þótt hún hafi ekki verið staðfest af þinginu, er nú þegar farin að hafa áhrif í greininni. Þrátt fyrir að hún hafi ekki verið samþykkt af Alþingi hefur hún þau áhrif að það er uppi meiri óvissa í greininni, og meiri óvissa þýðir auðvitað að það eru minni fjárfestingar, það er minna umleikis í greininni, akkúrat á þeim tíma sem við Íslendingar þurfum á því að halda að nýta öll sóknarfæri sem eru til staðar í sjávarútvegi.

Síðan er auðvitað hitt, sem var alveg sérstök umræða, hvað það er í núverandi kvótakerfi og aflamarkskerfi sem gerir það svo óvinsælt. Reyndar sýna margar rannsóknir að það sé einmitt framsalið, þ.e. að menn hafi þann möguleika að selja og kaupa aflaheimildir, sem hefur vakið hvað mesta úlfúð í samfélaginu. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að hárrétt ákvörðun hafi verið tekin á sínum tíma af forustumönnum Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, sem við sjálfstæðismenn höfum síðan stutt, að heimila framsal. Einn ágætur þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði eitt sinn á fundi sem ég heyrði til að kvótakerfi án framsals væru jafngáfulegt og flugvél án vængja. Auðvitað verður framsalið að eiga sér stað, en það hefur aftur á móti kallað á miklar umræður og ekki verið nein sérstök sátt um það í samfélaginu. Þar ræður nokkru hvernig menn hafa valið að ræða um þetta. Ég tel þetta eðlileg viðskipti og að þau séu grundvöllur þess að hægt sé að ná fram hagkvæmni í sjávarútvegi, sem ég tel skyldu greinarinnar við þjóðina, sem er eigandi fiskstofnanna, svo lengi og svo langt sem þjóðareignarhugtakið nær svo ég hafi nú aftur þann fyrirvara. Sú skylda á að hvíla á greininni að skila sem mestum verðmætum út úr nýtingunni á sóknunum og það er best gert með því að hafa möguleika á framsali. Þar höfðu forustumenn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks alveg rétt fyrir sér, enda höfum við stutt þá niðurstöðu. Það er engin ástæða fyrir hv. þm. Róbert Marshall að hlaupa frá henni, það var bara ágætisniðurstaða.

Eins og ég sagði áðan höfum við rætt þetta mál lengi á Íslandi, og mjög ítarlega í þessum þingsal. Það sem er sérstakt núna og gerir það að verkum að við teljum okkur ekki annað fært en að flytja þetta þingmál er sú staðreynd að ákvörðunin sem liggur fyrir, þessi yfirlýsing sem liggur fyrir í stefnuyfirlýsingunni, er farin að valda miklum skaða. Þess vegna flytjum við þetta mál og vonumst til þess að í umfjöllun hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar muni menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að hleypa málinu áfram, setjast ekki á það, hleypa því aftur til umræðu og ákvörðunar þannig að við látum reyna á þingviljann í þessu máli. Þetta er svo mikilvægt mál að það er sjálfsagt að gera það.

Hitt er líka að ég tel fara miklu betur á því að við komum heils hugar að því nefndarstarfi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði upp með í bréfi sínu þann 3. júní sl. þar sem einmitt var lagt upp með að við mundum saman og í sameiningu ræða okkur að niðurstöðu um þá endurskoðun sem við viljum gera á sjávarútvegsmálum okkar Íslendinga og fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég er í hópi þeirra, eins og margir hér inni, sem telja að það þurfi að endurskoða ýmislegt og ég hef áður bent á t.d. samspil ráðgjafarinnar um heildarafla annars vegar og hins vegar aflamarkskerfisins. Þar þarf margt að skoða. Það er ýmislegt sem þarf að skoða varðandi stöðu veikari byggða þegar kemur að því að kvóti er seldur í burtu o.s.frv. Allt þetta á að ræða og þess vegna ræða slíka leið sem hér er farið upp með. En til að það geti orðið með einhverjum vitrænum hætti er eðlilegt að ríkisstjórnin dragi þetta til baka, vísi þessu máli bara eins og öðrum til þeirrar nefndar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur stofnað, menn ræði sig þar saman að niðurstöðu og ef niðurstaða nefndarinnar er að það sé eðlilegt og menn nái sátt um einhvers konar afskriftaleið, gott og vel, þá ræðum við það. En að ætla nefndinni bara það eitt hlutverk þegar kemur að afskriftaleiðinni sem hér hefur verið lögð til að hún eigi bara að útfæra einhverja aðferð til að framkvæma þetta tel ég ekki skynsamlega málsmeðferð, frú forseti.

Enn á ný þakka ég fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég tel að hún hafi um mjög margt verið málefnaleg og upplýsandi og þó að við höfum verið að ræða málið með þessum hætti, þ.e. þetta form, þessa þingsályktunartillögu, hafa komið í ljós skoðanir ýmissa hv. þingmanna á málinu. Það er ágætt og er vel, og gott veganesti inn í frekari umræðu á okkar vettvangi. En enn og aftur skora ég á hv. þingmenn sem sitja í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að veita þessu máli brautargengi þannig það megi koma aftur í þingsalinn og að við getum þá leitt fram í raun og sanni hvort það sé þingmeirihluti fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar.