139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

flutningur málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga.

[14:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum sammála, við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, um að það skiptir mestu máli að vel takist til með þennan flutning, að þjónustan verði bætt, betur búið að fólki og að við nýtum okkur það tækifæri sem felst í þessum flutningi, að sveitarfélögin geti hlúð betur að málaflokknum. Auðvitað á stéttarfélagsaðild ekki að vera þar aðalatriði en það skiptir samt miklu máli að starfsmenn fari sáttir á milli aðila. Það hefur verið reynt að koma til móts við sjónarmið þar en því miður er enn ágreiningur sem á eftir að leysa í því máli. Ég vona samt að það stoppi á engan hátt málið, enda væri það mjög óeðlilegt. Það hefur náðst samkomulag um öll önnur atriði og það væri fáránlegt ef þetta stoppaði málið. Ég treysti á að það verði ekki.