140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

yfirfærsla málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga.

116. mál
[19:27]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Suðvesturkjördæmis spyr um stöðu yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga og hvað ráðuneytið hafi gert til að tryggja réttindi þess fólks við flutninginn. Ég þakka þessa fyrirspurn og áhugann, og eins og ég sagði síðast þegar við ræddum þessi mál, þá umhyggju og natni sem hv. þingmaður hefur sýnt í sambandi við málefni fatlaðs fólks.

Þegar ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlaða fluttist frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar síðastliðinn höfðu lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, verið endurskoðuð og samþykkt á Alþingi. Í lögunum, sem nú heita lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, kemur fram mjög skýr vilji Alþingis um metnað fyrir hönd málaflokksins og er það vel. Í lögunum voru nýju velferðarráðuneyti falin mörg og viðamikil verkefni samhliða því að flytja málaflokkinn til sveitarfélaga og er ljós sá vilji Alþingis að ganga bæði hratt og örugglega til verks. Í lögunum er meðal annars kveðið á um að minnsta kosti 15 verkefni, flest viðamikil, sem hrinda á í framkvæmd eða ljúka á árinu 2011.

Starfandi er samráðsnefnd til ráðgjafar í málefnum fatlaðs fólks og til að hafa umsjón með yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaga. Skipuð var átta manna samráðsnefnd í samræmi við VI. ákvæði til bráðabirgða í lögunum. Nefndin er skipuð fulltrúum frá Hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, innanríkisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og fulltrúa velferðarráðherra sem er formaður hópsins.

Samráðsnefndin hefur starfað ötullega frá því að hún var skipuð 10. febrúar síðastliðinn og hefur fjallað um ýmis mál, svo sem skiptingu fjármuna og samræmds mats á þjónustu. Enn fremur hefur nefndin fengið á fund sinn ýmsa gesti til að fylgjast með stöðu mála, einkum varðandi verkefni sem er verið að hrinda í framkvæmd í málaflokknum. Allt bendir til þess að yfirfærslan hafi farið vel fram og engar kvartanir varðandi yfirfærsluna hafa borist ráðuneytinu eða samráðsnefndinni frá notendum þjónustunnar.

Lokið hefur verið við gerð þriggja leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélögin sem ráðherra er heimilt að setja, þ.e. reglur um stuðningsfjölskyldur, reglur vegna náms og tækjakaupa og reglur um ferðaþjónustu. Reglurnar hafa verið sendar til umsagnar og munu svo berast mér til staðfestingar á næstu vikum.

Áður en yfirfærslan kom til framkvæmda samdi félags- og tryggingamálaráðuneytið við Félagsvísindastofnun, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um að gera viðamikla rannsókn í því skyni að afla upplýsinga um stöðu málefna fatlaðs fólks svo unnt sé að meta faglega ávinninginn af flutningnum frá ríki til sveitarfélaga.

Þann 26. október hélt velferðarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga ráðstefnu í Hörpu þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknarinnar sem vissulega munu nýtast á margan hátt, m.a. við mat á faglegum ávinningi flutningsins.

Strax í upphafi þessa árs var samin reglugerð um trúnaðarmenn í samræmi við 37. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. Í kjölfar þeirrar reglugerðar voru skipaðir átta trúnaðarmenn um allt land og eru þeir allir að minnsta kosti í hálfu starfi, t.d. eru í Reykjavík og á Seltjarnarnesi tveir trúnaðarmenn í einu og hálfu starfi.

Þá var lagt fram frumvarp til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og varð það að lögum á vorþingi, lög nr. 88/2011. Í kjölfar þess urðu breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks þannig að ákvæðið um trúnaðarmenn féll úr gildi og tóku réttindagæslumenn við hlutverki þeirra. Auk þess er í lögunum ákvæði um réttindavakt í ráðuneytinu og skipun persónulegra talsmanna fyrir fatlað fólk. Það er e.t.v. helsta nýmælið í þessum lögum og mun breyta miklu í réttindamálum fatlaðs fólks.

Skipuð var nefnd til að undirbúa frumvarp um aðgerðir gegn beitingu nauðungar við fatlað fólk og er stefnt að því að leggja frumvarpið fram á næstu dögum. Nái frumvarpið fram að ganga er áætlað að það verði fellt inn í lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Loks ber að nefna að í ráðuneytinu er unnið að gerð tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og er stefnt að því að leggja hana fyrir þingið 1. desember næstkomandi. Í áætluninni verða tilgreind markmið í atvinnumálum fatlaðs fólks, gæðaviðmið, árangursmælikvarðar og eftirlit með þjónustunni. Einnig verða tímasettar aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismál, biðlista eftir þjónustu og samræmds mats á þjónustu.

Ég vil nota þetta tækifæri líka til að upplýsa að verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð hefur verið að störfum frá því í maí 2011. Verkefnastjórnin stefnir að því að leggja fram stöðuskýrslu núna í nóvember með leiðbeiningum til sveitarfélaga um hvernig fara skuli með umsóknir um þessa þjónustu.

Þá er starfandi hópur um framtíðarskipulag atvinnumála fatlaðs fólks sem stefnir að því að ljúka störfum fyrir næstu áramót.

Að lokum ætlaði ég að nefna hér samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég mun svo í síðara svarinu (Forseti hringir.) koma að þeim athugasemdum sem komu frá hv. þingmanni um þá 11 einstaklinga sem eru á Landspítalanum og hvernig við getum leyst mál þeirra.