142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:31]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tilheyri þeim stóra hópi Reykvíkinga sem vilja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn styrkir óneitanlega stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins, ekki síst vegna mikilvægis þess að samgöngur séu sem greiðastar við stjórnsýslustofnanir landsins. Þá eru Reykvíkingar svo lánsamir að hafa Landspítala – háskólasjúkrahús í borginni. Viljum við ekki veita öllum Íslendingum sem bestan aðgang að því öryggi sem er að komast á sem stystum tíma á spítala ef neyð knýr dyra?

Flugvöllurinn er í mínum huga líka nauðsynlegur með tilliti til þess að við viljum efla atvinnustarfsemi um land allt, eins og til dæmis ferðaþjónustuna.

Þó að ekki verði byggt í Vatnsmýrinni í fyrirsjáanlegri framtíð verður Vatnsmýrin áfram á sínum stað. Erfitt er að spá hvort þar verður flugvöllur, byggð eða votlendi, ef við viljum endurheimta votlendið, um alla framtíð. En út frá öryggissjónarmiðum sem og stöðu ríkissjóðs er það fráleit hugmynd að ætla að flytja flugvöllinn í Reykjavík í bráð. Ég tel því meiri hluta borgarstjórnar á villigötum í þessu máli.