144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

haustrall Hafrannsóknastofnunar.

319. mál
[17:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að taka þetta mál upp en það snýr að fjárhagsvanda Hafrannsóknastofnunar. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér brá mjög við svarið.

Ef hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin er að gæla við að við gerum ekki út hafrannsóknaskip, fiskveiðiþjóðin Ísland, að við ætlum ekki að eiga okkar eigin skip sem stunda hafrannsóknir eins og haustrallið, þá segi ég einfaldlega: Nei takk. Það mun aldrei gerast.

Mér virðist að hér sé verið að útdeila kvóta. Og ég spyr og ítreka: Hvaðan kemur þessi kvóti? Af hverju er hann tekinn? Þetta eru tæplega 800 tonn sem er meira en núverandi ríkisstjórn getur notað til hjálpar tveimur eða þremur byggðarlögum í miklum vanda þegar fiskvinnslufyrirtækið Vísir fer frá nokkrum stöðum á landinu og hættir starfsemi sinni þar.

Mér sýnist andvirði þessa kvóta geta verið 200–240 millj. kr. Sértekjur Hafrannsóknastofnunar eru 1,3 milljarðar þannig að við getum reiknað þetta í hlutfalli. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Mér virðist eins og hér sé verið að fara leið (Forseti hringir.) til að falsa ríkisreikning til að sýna betur hallalaus fjárlög sem núverandi ríkisstjórn er að reyna að ná, með því að (Forseti hringir.) taka þetta út úr ríkisreikningi.