144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

haustrall Hafrannsóknastofnunar.

319. mál
[17:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svar hæstv. ráðherra staðfesti versta ótta minn í þessu máli. Hér er með öðrum orðum verið að fara algjörlega forkastanlega leið í meðferð ríkisfjár. Verið er að ráðstafa 786 tonnum í þetta verkefni, það er meira en framlög til tveggja byggðarlaga í alvarlegum vanda samkvæmt viðmiðum Byggðastofnunar um brothættar byggðir. Fólkið á Djúpavogi er að fá 300 tonn, þetta eru engar smáfjárhæðir sem hér er um að tefla.

Þegar horft er til þess að nettókostnaður við rallið hefði orðið 25 millj. kr., þá spyr maður: Af hverju í ósköpunum er verið að verja veiðiheimildum upp á 200 millj. kr. til einkaaðila, til að framkvæma rannsóknir sem hefðu kostað 25 millj. kr. að láta opinbera stofnun sinna? Af hverju í ósköpunum voru þær veiðiheimildir ekki seldar til að afla fjár fyrir Hafrannsóknastofnun til að sinna verkefnum? Þetta er algjörlega óskiljanleg meðferð á almannafé og algjörlega óásættanleg.

Maður hlýtur að spyrja: Er þetta það sem koma skal? Verður það þannig að landbúnaðarháskólanum verði úthlutað kvóta eða aðgangi að beingreiðslum eða öðru slíku til að forðast að færa hluti rétt í ríkisreikning?

Hér er verið að fara fráleita leið. Stofnunin þarf á því að halda að hafa sjálfstæði gagnvart útgerðunum. Af hverju í ósköpunum er þessi leið farin? Verðmætið, eins og ég segi, aflaverðmæti og verðmæti kvótans samanlagt er lauslega áætlað í kringum 200 millj. kr. Nettókostnaður við úthald skipanna væri 25 millj. kr. Skipin eru þarna, fólk er í vinnu við að sinna því að vera á þeim en það fær ekki einu sinni að sigla úr höfn. Hvers konar stjórnsýsla er þetta?