144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rekstur Hlíðarskóla.

224. mál
[18:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Þriðja fyrirspurn mín í dag til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra snýr að skólamálum, nánar tiltekið að rekstri Hlíðarskóla á Akureyri. Í fjölmörg ár hafa fulltrúar Akureyrarbæjar, þ.e. bæjarstjórn Akureyrar, í viðtölum við þingmenn kjördæmisins alltaf rætt um málefni Hlíðarskóla. Þeir hafa rætt við okkur þingmenn og spurt hvers vegna ekki sé eðlilegt að gera þjónustusamning við Akureyrarbæ um rekstur Hlíðarskóla líkt og gert er um rekstur Brúarskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Það hafa verið gerðar miklar skipulagsbreytingar á Hlíðarskóla og er búið að gera einn skóla úr þremur hlutum. Nemendur við skólann eru nú að jafnaði um 20 og þróunin hefur verið sú að umsóknum um skólavist fyrir börn með aðlögunar- og hegðunarvanda fækkar en hins vegar fjölgar umsóknum fyrir nemendur með þroskaskerðingar og geðfatlanir samfara miklum hegðunarröskunum. Þessir nemendur þurfa miklu meiri og lengri aðstoð og nauðsynlegt er að mikil fjölskylduvinna fylgi með. Hlíðarskóli veitir nemendum sambærilega þjónustu og Brúarskóli, eins og áður sagði, og þess vegna hafa Akureyringar og fulltrúar Akureyrarbæjar fært þetta í tal við okkur, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur oftar.

Skólinn hefur sex sinnum fengið framlag á fjárlögum sem verður að teljast viðurkenning á ofangreindum sjónarmiðum sem ég hef hér rakið. Það hefur komið fram hjá fulltrúum Akureyrarbæjar að rekstur skólans kosti tæpar 100 millj. kr., þar af er launakostnaður 75 millj. kr. Þeir telja sanngjarnt að ríkið komi að helmingi kostnaðar við þá þjónustu sem veitt er í skólanum.

Ég legg því fram eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þótt ég geri mér grein fyrir að velferðarráðuneyti komi þar að líka:

Hvers vegna er ekki gerður þjónustusamningur við Akureyrarbæ um rekstur Hlíðarskóla á Akureyri?