146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sessunaut fyrir fyrirspurnina. Ég viðurkenni hreinskilnislega að í þessum málum togast mjög sterkt á í mér tvö sjónarmið. Gárungarnir gætu jafnvel sagt að ég væri ósammála sjálfri mér í þessum málum. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að standa í smásölurekstri og almennt er ég líka þeirrar skoðunar að fólk eigi sjálft að fá að bera ábyrgð á eigin skoðunum, ákvörðunum og gerðum. En þegar kemur að þessu tiltekna máli koma önnur mjög sterk samfélagsleg sjónarmið inn í myndina og það eru lýðheilsuáhrifin. Ég er einfaldlega, eins og hv. þingmaður nefndi, mjög höll undir þau sjónarmið.

Við erum fyrst og fremst að mínu mati að tala um aðgengi hér, aðgangsstýringuna sem er ein af þremur atriðum sem talað er um í forvörnum í þessum málum. Hin eru skattarnir og síðan fræðslan. Það er í þessu tiltekna frumvarpi, eins og ég skil það, á engan hátt verið að leggja til breytingar þar nema síður sé, þ.e. það eru lagðar til breytingar í átt að aukinni fræðslu.

Það er þegar í dag greiður aðgangur að áfengi og sú þróun hefur verið undanfarið undir forystu núverandi rekstraraðila sem er ríkið. Útsölustöðum hefur fjölgað, opnunartími lengst, það er auglýst og víða settar reglur þannig að það er einfaldlega ekki mikill aðskilnaður áfengis og annarrar vöru. Það þarf ekkert að fara út fyrir Reykjavík til að upplifa það.

Þróunin í frjálsræðisátt er hafin þó að vissulega séu skorður settar. Til að svara spurningunni tel ég að uppfylla mætti lýðheilsumarkmiðin með áframhaldandi takmörkun á sölutíma og afmörkun á sölusvæði án þess að ríkið stundi áfram einokunarsölu. Slík breyting væri nokkuð sem ég gæti skoðað með jákvæðum huga en ekki frumvarpið eins og það lítur út óbreytt í dag.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna