146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:05]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Heilsugæslan hefur átt undir högg að sækja um allt land undanfarin ár, þessi vanmetna en mikilvægasta grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar. Hugtakið heilsugæsla nær nefnilega ekki aðeins yfir almennar lækningar, hjúkrun, heilsuvernd, forvarnir, bráða- og slysamóttöku og aðra þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á vegum heilsugæslustöðva, eitt mikilvægasta verkefni heilsugæslu er samþættingin, að veita heildstæða samfellda þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur, vinna heilsuverndarstarf, allt það sem unnið er án innlagnar á heilbrigðisstofnun. Þverfagleg teymisvinna fagfólks er þannig víða liður í umbótastarfi undir merkjum lýðheilsu og þótt sverfi að í fjárhag stofnana er þetta áhersluatriði.

Við þekkjum öll umræðuna og þá þróun sem átt hefur sér stað og magnaðist til muna við efnahagshrunið þegar fjöldi lækna hvarf til vinnu í útlöndum. Það ásamt lítilli nýliðun í aldurhniginni sérfræðingastétt heimilislækna hefur valdið því að heilsugæslunni hefur víða og lengi verið sinnt í skötulíki. Það á jafnt við um höfuðborgarsvæði sem landsbyggð.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur nú sem betur fer rofað nokkuð til og horfur hvað varðar endurreisn heilsugæslunnar eru vænlegri en áður. Að minnsta kosti tvær nýjar heilsugæslustöðvar taka brátt til starfa í Reykjavík samkvæmt nýju módeli, reknar af einkaaðilum á grundvelli útboðs. Þetta á að vera svar við langvarandi manneklu og áhugaleysi fyrir stöðum lækna í opinberu vinnuumhverfi og viðleitni til að laða að öflugt fagfólk til starfa. Aðalbreytingarnar felast í gjörbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun þar sem umbuna skal fyrir skilvirka og góða þjónustu samkvæmt mati. Markmiðið er að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata sem að þessu stuðli og hagkvæmari rekstur.

Í náinni framtíð eiga allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu að starfa samkvæmt þessu sama módeli ef marka má yfirlýsingar fyrrverandi ráðherra. Sömu forsendur verða lagðar til grundvallar óháð rekstrarformi þannig að allir sitji við sama borð, hvort sem reksturinn er opinber eða á hendi einkaaðila.

Það er ástæða til að spyrja ráðherra hvernig þeirri vinnu líður og hvenær þetta verði að veruleika. Hugmyndin mun vera sú að sambærilegt fjármögnunarkerfi verði innleitt á landsvísu þegar frá líður. Það verður spennandi að sjá útfærslu ráðherra að þessu leyti við aðstæður í dreifbýli.

Ástandið á landsbyggðinni er því miður alvarlegt. Þar mun ekki sjá til sólar að óbreyttu og sérstakt átak þarf til uppbyggingar að nýju. Læknaskortur er viðvarandi og hringinn í kringum landið er verið að bjarga þjónustunni meira og minna með skammtímalausnum. Þar sem áður var stöðug og góð heilsugæsla er læknisþjónusta nú látin í té af verktökum á dagprísum. Þeir læknar eru svo horfnir á braut, eiga ekki rætur í samfélögunum, samfella verður lítil og íbúar una þessu ekki vel.

Heilsugæsla á landsbyggðinni er gríðarlega mikilvæg íbúunum en er nú svipur hjá sjón. Góð heilsugæsla skiptir sköpum fyrir margar fjölskyldur og getur ráðið eftir atvikum úrslitum um búsetuval. Því er hins vegar ekki saman að jafna heilbrigðisþjónustu í þéttbýli og dreifbýli þar sem langt er í bjargir, ferðalög umtalsverð og móttaka sjúklinga kannski ekki jafn fyrirferðarmikil og í þéttbýli þar sem krafan er hröð afgreiðsla sem flestra á sem skemmstum tíma.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að öflug heilbrigðisþjónusta sé forgangsatriði. Það er ein setning um heilsugæsluna í því plaggi. Í ljósi forgangsins leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra jafnframt til hvaða ráða hann hyggist grípa til að efla stöðugleika heilsugæslunnar á landsbyggðinni, þjónusta sem er því miður víða í molum, fjárhagslega svelt og hefur ekki fengið leiðréttingar í samræmi við verðlag? Má landsbyggðin búa sig undir óbreytt viðmót heilbrigðisyfirvalda? Verður þjónustan á Hólmavík eða á Vopnafirði boðin út? Metur hæstv. ráðherra þessi svæði fýsilega markaðsvöru? Þarf ekki eitthvað meira til?