146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[14:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem kallað hafa eftir betra skipulagi. Betra skipulag mun leggjast með okkur í undirbúningi og væntanlega þá betri umræðum og betri ákvarðanatökum. En mig langar sérstaklega að tala um liðinn störf þingsins, hvernig við skráum okkur inn á þann lið. Ég get sagt frá því að við sátum þrjú í þingflokki Samfylkingarinnar í þingflokksherberginu. Við vorum komin þangað 10 mínútur fyrir átta því að við áttum að fara á annan fund klukkan átta en vildum gjarnan skrá Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, inn svo hann gæti talað um að Gylfi Þ. Gíslason hefði orðið 100 ára í dag ef hann hefði lifað. Við biðum eftir laginu sem kemur á undan átta-fréttunum í Ríkisútvarpinu. En í morgun var lagið of seint. [Hlátur í þingsal]. En við áttuðum okkur á því og ýttum á „send“ og hann var númer níu í röðinni. Klukkan var bara rétt nokkrar sekúndur yfir átta. Þetta er eiginlega bara brandari, frú forseti.