146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svar hans þó rýrt hafi verið og fagna því að yfirlýst markmið sé að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann eins og hann orðaði það. Er það þá rétt skilið hjá mér að ekki sé búið að útfæra neinar tillögur um það í þessu frumvarpi? Það kemur þá kannski frekar til kasta nefndarinnar að fjalla um það ef ekki er búið að útfæra í frumvarpinu einhvers konar tillögur vegna þess kostnaðar sem mun væntanlega verða til þegar á reynir.

Í starfshópnum sem samdi þetta frumvarp var m.a. fulltrúi frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Ég velti fyrir mér hvort þau samtök hafi ekkert haft um það að segja þegar kemur að kostnaði við þessi auknu verkefni Fjármálaeftirlitsins.