146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vandamálið við þessa ræðu er að það er röng fullyrðing í henni til að byrja með. Það er ekki djúpstæður halli í dómskerfinu og réttarkerfinu. Ég nefni lögreglustjóra, ákæruvald og héraðsdómstóla, þar er orðið talsvert mikið jafnræði, sums staðar held ég að halli á karla ef út í það er farið. Það er ekki djúpstæður halli. Eina vandamálið sem við glímum við enn þá er Hæstiréttur. Kannski er staðan sú að lögin eru þannig gerð og það eru auðvitað gerðar kröfur um mikla reynslu. Þeir sem hafa kannski slíka reynslu eru nú allir komnir á sextugsaldurinn og jafnvel allt að sextugu. Í þeim hópi lögfræðinga eru miklu færri konur. Ég held að það sé eini vandinn. Þessi vandi mun leiðréttast sennilega á næstu tíu árum eða jafnvel skemur.

Þetta óþol í kringum þetta er sama óþolið og ég heyrði á sínum tíma þegar fyrsta konan varð dómari í Hæstarétti einhvern tímann, sautján hundruð og súrkál. (Gripið fram í.) Hún var 52 ára. Og menn sögðu: Loksins kona, loksins kona. Alveg búið að níðast á konum árum saman. En hún var fjórða konan sem fékk lagapróf í landinu. Sú fyrsta af þeim varð nú ráðherra og borgarstjóri. Önnur var þingmaður. Þriðja dómari. Svo þessi fjórða. En alltaf sama umræðan, alltaf verið að berja á konum í þessari stétt. Það hefur aldrei verið barið á konum í þessari stétt. Þetta hefur ekkert með feðraveldið að gera. Ég er meira að segja kvæntur dómara. Bæði dómari í vinnunni og heima hjá sér. Þetta er nú allt feðraveldið.