149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

afnot af Alþingishúsinu.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil ítreka að ég er alls ekki að fela sig á bak við nefndina. Mér fannst bara rétt að nefna það af því að mér fannst ég greina á fyrri orðum hv. þingmanns að hún þekkti hugsanlega ekki til þess að þessi beiðni hefði komið frá nefndinni þar sem hennar fulltrúi situr. Ég ítreka það bara við formenn þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi að kynna sér það góða starf sem sú nefnd hefur unnið á þessu ári. Ég sagði áðan að það hefðu verið óteljandi viðburðir um land allt sem ég hef tekið þátt í. Mér finnst þessi nefnd hafa staðið alveg feikilega vel að hátíðahöldum í tilefni af fullveldisafmælinu og hennar framlag hefur verið það að virkja fólk um land allt til þátttöku.

Hvað varðar notkun þinghússins hlýt ég að leggja til að hv. þingmaður taki það upp við forsætisnefnd Alþingis sem tekur slíkar ákvarðanir og markar stefnu í þeim málum. Ég er algjörlega tilbúin til slíks samtals við hv. þingmann og aðra um hvernig við nýtum þinghúsið og hvort við viljum setja slíkar skýrari reglur. Ég vil bara ítreka það sem kom fram, að þetta var gert með leyfi yfirstjórnar þingsins að frumkvæði afmælisnefndar Alþingis.