149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

staðan gagnvart Bretlandi vegna Brexit.

[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísaði hér til fleiri ríkja sem er mjög mikilvægt að við eigum áfram góð og náin samskipti við. Það er augljóst þegar núna er meiri áhersla á Norður-Atlantshafið en hefur verið lengi að það kallar á aukið samstarf milli þessara ríkja sem hv. þingmaður vísaði til. Við höfum unnið að því og munum halda því áfram.

Hv. þingmaður vísaði líka til sjávarútvegsmálanna. Eins og margar aðrar þjóðir hafa Bretar litið til sjávarútvegskerfis okkar. Þeir eru núna, sem er ótrúlegt, að fá aftur viðskiptafrelsi, núna mega þeir aftur ákveða sína eigin viðskiptasamninga, frelsi sem við auðvitað höfum, og eru sömuleiðis að fá aftur stjórn yfir fiskveiðiauðlind sinni. Þeir hafa haft stjórn á hvorugu innan ESB eins og þær þjóðir sem eru þar inni.

Það vekur athygli að íslenski sjávarútvegurinn er eini sjávarútvegurinn innan OECD-ríkjanna sem skilar nettósköttum inn í þjóðarbúið og er (Forseti hringir.) umhverfislega sjálfbær og það er eitt af því sem Bretar hafa litið til í okkar viðræðum. Við munum þurfa að vinna með þeim, ásamt grannríkjum okkar, þegar kemur að sjávarútvegsmálum og sérstaklega strandveiðum flökkustofna ásamt ýmsu öðru í nánustu framtíð.