149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:01]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Allt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 hefur Ísland verið aðildarríki. Aðildin ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin hefur því verið hornsteinn íslenskra öryggis- og varnarmála allan þennan tíma.

Samstarf við okkar nánustu bandalags- og vinaríki hefur gert það að verkum að uppbygging varnargetu landsins hefur ekki orðið Íslandi ofviða. Sem aðildarþjóð getum við þó ekki verið eingöngu í hlutverki þiggjandans heldur ber okkur að taka þátt í víðtæku samstarfi sem fram fer á vettvangi bandalagsins og leggja okkar af mörkum með ýmsu móti. Við tökum, íslenska þjóðin, vissulega þátt í starfi NATO á grundvelli herleysis með þátttöku í pólitísku starfi, með rekstri varnarmannvirkja bandalagsins á Íslandi, með fjármögnun og með því að senda borgaralega sérfræðinga til starfa á vegum bandalagsins.

Það að við skyldum samþykkja þjóðaröryggisstefnu árið 2016 var mjög mikilvægt skref því að hún hefur verið leiðarljós í samstarfi Íslands á sviði öryggis- og varnarmála og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, eins og ég kom að áðan.

Við þurfum náttúrlega afmarka okkur. Við erum lítil þjóð í stóra samhenginu og á þingmannasamkomu aðildarþjóðanna, NATO-þinginu, hafa áherslur okkar verið á konur, frið og öryggi, það hafa verið áherslumálin hjá okkur í öllum málflutningi á því þingi, þó að ég sitji ekki þar núna. Það er horft til okkar sem þjóðar í jafnréttis- og umhverfismálum og þar tel ég að við ættum að vera leiðandi og ég vona að það gangi eftir hjá ágætum ráðherra.