149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, umræðuna og ekki síður málefnið, samhengi málsins hér, og hæstv. ráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hans innlegg. Eins og mál hafa þróast hér — mjög hratt í seinni tíð, vil ég segja og öryggisumhverfi breytt — er óhjákvæmilegt, og það lýsir sér vel í umræðu hér, að nálgast öryggismál og varnir á breiðum grundvelli. Áskoranirnar eru margslungnar. Það er einkum þetta tvennt sem ég vil draga fram hér, virðulegi forseti, í umræðunni, þ.e. þessa breiðu nálgun og samstarf við önnur ríki, áhersluna á þann þátt, og framlög og þróun fjárveitinga til málaflokksins.

Það var áberandi í vinnu þingmannanefndarinnar að undirbúningi þjóðaröryggisstefnu, og hv. utanríkismálanefndar í umfjöllun um þingsályktunartillögu stefnunnar, að nálgast öryggis- og varnarmál á breiðum grundvelli á viðsjárverðum tímum eins og þar segir. Það birtist mjög skýrt í þeim breytingartillögum sem hv. utanríkismálanefnd lagði fram við lokatillögu málsins, að taka mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum; að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi; og í lokalið tillögunnar að framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni.

Virðulegi forseti. Ég álít að við höfum verið sjálfum okkur samkvæm. Ef við skoðum málaflokkinn um samstarf um öryggis- og varnarmál, um að tryggja öryggi og varnir Íslands með virku samstarfi við önnur ríki, þá höfum við aukið fjárveitingar til málaflokksins um 60% á tveimur árum.