150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Þetta er fjölbreytt mál og mig langar aðallega í fyrra andsvari að koma inn á tvennt því tengdu. Margir sem töldu sig hafa eignarréttindi og voru búnir að fara í gegnum þetta ferli óbyggðanefndar og annað slíkt hafa sagt að þetta sé ein stærsta eignaupptaka sem þeir hafa lent í. Þess vegna er þetta mjög viðkvæmt mál og þess vegna er maður að reyna að átta sig á því nákvæmlega hvaða áhrif þessi breyting hefur. Þegar eitthvert land hefur nú þegar farið í gegnum óbyggðanefnd og komin er niðurstaða í málið þar sem eigendur lands hafa oftast borið meiri ábyrgð á sönnunarbyrðinni, þeim finnst það í það minnsta, geta þeir þá átt von á því að það mál verði tekið upp aftur á grundvelli nýrra gagna? Mér skilst að fyrirkomulagið eða dómsúrskurðarframkvæmdin hafi verið þannig að málunum var oftast lokið ef eigandi lands stóð ekki undir afgerandi sönnunarbyrði, að þá hafi úrskurðurinn verið að landið væri þjóðlenda. Eru einhverjar líkur á að mál verði tekin upp sem hefur verið lokið af hálfu nefndarinnar?

Svo er það annað. Hvernig er með þá sem voru ekki upplýstir eða föttuðu ekki, ég veit ekki nákvæmlega hvernig ég á að orða það, að lýsa kröfu í lóðarréttindi? Þá er ég að tala um inni á hálendi og annað slíkt þar sem bæði björgunarsveitir, útivistarfélög og fleiri eru með lóðir sínar. Ef þau hafa ekki lýst kröfu fyrir óbyggðanefnd þarf að bjóða landið út aftur til að gæta samræmis. Hefur það vandamál verið leyst einhvern veginn þannig að frjáls félagasamtök og björgunarsveitir og aðrir þurfi ekki að hlíta útboði á lóðarréttindum?