150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[17:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hann nefnir um hlutverk ríkisins sem landeigenda. Þess vegna fannst mér mjög mikilvægt að ríkið gæfi út eigendastefnu fyrir þjóðlendur en um leið erum við að taka annað skref í því núna þar sem við erum að færa leyfisveitingarvaldið til sveitarfélaga nema hvað varðar orkunýtingu, sem þýðir til að mynda að uppbygging, segjum á ferðaþjónustu, færist núna til sveitarfélagsins, að taka afstöðu til þess. Hlutverk forsætisráðuneytisins er þá fyrst og fremst að staðfesta slík leyfi og kanna hvort þau séu í samræmi við eigendastefnu ríkisins sem landeigenda. Ég held að þetta verði til hægðarauka fyrir þá sem vilja nýta þjóðlendurnar og færi það ferli — einhvers konar leyfi til nýtingar á þjóðlendum í samræmi við eigendastefnu — nær viðkomandi aðilum.