151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um viðspyrnustyrki. Frumvarpið er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

Í frumvarpinu er lagt til nýtt úrræði sem felur í sér beina styrki úr ríkissjóði sem ætlunin er að nýtist rekstraraðilum til að viðhalda lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir. Viðspyrnustyrkjum er ætlaður gildistími út maí á næsta ári og eru hugsaðir sem beint framhald af tekjufallsstyrkjunum sem lögfestir voru nýlega.

Í frumvarpinu er lagt til að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá nóvember 2020 til og með maí 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geti fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði í mánuðinum. Áskilið er að tekjufallið stafi af heimsfaraldri kórónuveiru eða aðgerðum stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar Þá er lagt til að viðspyrnustyrkur geti numið allt að 90% af rekstrarkostnaði á sama tímabili, þó verði hann aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á viðkomandi tímabili. Styrkurinn getur hæstur orðið 400 þús. kr. fyrir stöðugildi á mánuði ef tekjufall er á bilinu 60–80% og að hámarki 2 millj. kr. á mánuði, en 500.000 kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði og að hámarki 2,5 millj. kr. ef tekjufall er meira en 80%.

Til að koma til móts við þá einyrkja og minni rekstraraðila sem höfðu lítinn eða engan rekstrarkostnað á tímabilinu vegna þess að starfsemin var í lágmarki vegna faraldursins er heimilað að miða rekstrarkostnað við reiknað endurgjald í sama almanaksmánuði í skattframtali vegna rekstrarársins 2019. Til að hljóta styrk þurfa umsækjendur að auki að uppfylla öll önnur skilyrði frumvarpsins en þau helstu eru að rekstraraðilinn beri fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, að tekjur hans hafi að lágmarki verið 500 þús. kr. frá 1. janúar 2020 til loka október 2020, að hann sé í skilum með opinber gjöld sem komin voru á eindaga um síðustu áramót og að hann hafi staðið skil á ákveðnum gögnum til Skattsins fyrir umsóknardag. Þá er áskilið að rekstraraðilinn hafi ekki verið tekinn til slita eða gjaldþrotaskipta.

Líkt og gildir um lokunarstyrki og tekjufallsstyrki er lagt til að bæði umsóknar- og ákvörðunarferli vegna viðspyrnustyrkja verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum. Þá er lagt til að ákvarðanir Skattsins sæti kæru til yfirskattanefndar.

Unnið hefur verið að undirbúningi þessa máls í stjórnkerfinu, þ.e. verði málið að lögum ætti stjórnkerfið að vera tilbúið til þess að hrinda lögunum mjög hratt í framkvæmd. Það felur í sér að við ættum að geta tekið við umsóknum rafrænt, nokkurn veginn beint í kjölfar þess að lögin taka gildi. Það er unnið út frá því hjá Skattinum að umsóknin geti borist mánaðarlega, fyrir þann mánuð sem liðinn er og er til samanburðar eða til viðmiðunar um tekjufallið. Vonir standa til þess að umsóknir séu afgreiddar í framhaldinu á u.þ.b. einni viku að því gefnu að sjálfsögðu að skilyrði séu uppfyllt, þar á meðal um skil gagna.

Virðulegi forseti. Það úrræði sem lagt er til í frumvarpinu skapar ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir aðila í rekstri og það ætti að veita þeim svigrúm til að viðhalda lágmarksstarfsemi og tryggja viðbúnað þegar úr rætist. Gera má ráð fyrir að styrkveitingarnar, ásamt öðrum efnahagsaðgerðum stjórnvalda, hafi jákvæð áhrif á efnahagsumsvif og atvinnustig og stuðli þannig að auknum tekjum ríkissjóðs sem vegi að hluta til á móti kostnaði af aðgerðinni. Heildaráhrif þessa frumvarps á ríkissjóð eru talsverðri óvissu háð þar sem ekki er vitað fyrir fram hversu margir rekstraraðilar muni uppfylla öll skilyrði frumvarpsins og sækja um styrkinn. En áætlað er að heildaráhrif viðspyrnustyrkja á ríkissjóð geti aldrei orðið meiri en 19,8 milljarðar kr. á því sjö mánaða tímabili sem úrræðið nær yfir. Það er eins konar hámark á mögulegum áhrifum, að okkar mati, og þess vegna væri nær að tala um að áætlað kostnaðarmat fyrir því sem líklegt er að verði greitt út í styrki verði nokkru lægra.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.