151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

hollustuhætti og mengunarvarnir o.fl.

335. mál
[15:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja mjög um þetta merka mál en þetta er í sjálfu sér merkilegt frumvarp vegna þess að Ísland er að tengjast á nýjan hátt inn í alþjóðlegan kolefnisbúskap, getum við kallað það, með því að bjóða fram kolefnisbindingu í allstórum stíl. Þetta er í raun sala á kolefniskvóta til þeirra sem vinna virkt í andófi gegn loftslagsbreytingum, það geta verið innlend og erlend fyrirtæki, og í þeim stíl sem hér er um að ræða myndi ég ætla að það væru alla jafna frekar stór fyrirtæki.

Niðurdælingin felst í því, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, að koma kolefnisgasi inn í vatn og dæla því niður í jörðina. Efnið sem þarna sest til, þetta steingerða kolefni, er í raun og veru samband kolefnis og kalks, við köllum það kalsíumkarbónat. Í hreinu formi, fallegu formi, gengur það undir heitinu silfurberg, sem flestir Íslendingar, eða margir, þekkja vel úr sögunni vegna þess að íslenska silfurbergið er í raun og veru heimsfrægt. Það var hluti af byltingu í ljóstæknifræðum, optík, sem kallast svo, þegar verið var að þróa sérstakar smásjár og taka stórstíg skref í vísindaframförum fyrir löngu síðan. Það á sem sagt mjög stóran sess í vísindasögunni og út var að koma bók hér á Íslandi um íslenska silfurbergið. Núna eru þessi tæki auðvitað ekki notuð lengur en núna fær silfurbergið nýjan sess í vísindasögunni því að þetta er jú afurð vísinda á vissan hátt en um leið er þetta sess í sögu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta sé afar ánægjuleg afurð, sem er ekki tilviljun, vísindasamstarfs á nýjum vettvangi, samstarfs íslenskra vísindamanna, bandarískra vísindamanna og fleiri aðila sem skilar okkur þessum áfanga.

Mig langar að nota tækifærið hér í leiðinni, herra forseti, til að minna á annað mjög svipað verkefni sem er að skila árangri og kallast Skógarkolefni. Það er verkefni Skógræktarinnar, bænda og fleiri aðila um að opna fyrir vottaða kolefnisbindingu í skógi á Íslandi, einnig fyrir innlend og erlend fyrirtæki. Hægt er að kaupa sér skógrækt og þar með minnka áhrif eigin losunar á koldíoxíði eða kolefnisgösum á andrúmsloftið með því að binda það hér á landi í skógrækt. Því er auðvitað ekki saman að jafna, þetta er á vissan hátt í minni stíl en við getum gert með niðurdælingu, en engu að síður er rétt að minna á það.

Frumvarpið sem við ræðum hér er glæsilegt frumkvæði af hálfu stjórnvalda og vísindamanna og nú Alþingis vegna þess að við þurfum jú að afgreiða þetta ágæta frumvarp og ég á ekki von á öðru en að um það verði þverpólitísk samstaða.