151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

skákkennsla í grunnskólum.

106. mál
[18:36]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að leggja orð í belg um þessa þingsályktunartillögu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar um að skákkennsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskóla. Ég verð að segja að mér finnst þetta bæði gott mál og fallegt og að í því speglist bæði klassísk hugsun og falleg, frumleg og falleg. Fyrir mitt leyti tel ég jafnframt að tillaga til þingsályktunar sem eykur vægi skáklistarinnar með skákkennslu eigi hiklaust erindi hingað á Alþingi Íslendinga. Ég myndi í því sambandi vísa í rökin sem tilgreind eru í þingsályktunartillögunni sjálfri og hv. flutningsmaður reifaði hér ágætlega rétt áðan. Auðvitað held ég að hverjum manni og konu á Íslandi sé ljóst hvaða þýðingu skákin hefur haft í menningu okkar, vil ég leyfa mér að segja, en rökin eru að jafnframt liggi fyrir rannsóknir um kosti, þýðingu og vægi skákkennslu fyrir börn á grunnskólaaldri varðandi námsárangur og kannski ekki síður félagslega færni. Það liggi fyrir, ekki aðeins í samhengi við okkar þjóð sem hér býr, að erlendis hafa verið gerðar rannsóknir á áhrifum skákkennslu á nemendur sem allar benda í sömu átt, að manni virðist, að skákkennsla hafi ekki aðeins góð áhrif á námsgetu og einbeitingu, sem manni finnst kannski það sem augljósast sé um áhrifin, heldur líka á skapandi hlið skólagöngunnar. Tiltekið er ímyndunarafl, sjónminni, óhlutbundin hugsun, það að geta tileinkað sér fjölþættar lausnir og skákkennsla sé til þess fallin að stuðla að því að styrkja nemendur, og börn, í að sýna samheldni og rækta með sér félagsleg tengsl.

Mér fannst áhugavert að sjá það í þessari þingsályktunartillögu að skákiðkun sé sérstaklega heppileg fyrir nemendur á yngri skólastigum. Ég verð að viðurkenna að ég þekkti ekki til slíkra rannsókna en ég get nú sagt að þegar maður les um þær rannsóknir og rökin þar að baki og niðurstöðurnar er það kannski lógísk niðurstaða að svo sé, að skákin sé t.d. gott tæki til að byggja upp anda og efla félagsfærni, eins og ég nefndi hér áðan. Það er kannski vegna þessarar grunnhugmyndafræði í skákinni um að þar séu allir jafnir og þar setjast allir bókstaflega við sama borð.

Á þetta mál erindi við Alþingi Íslendinga? Hiklaust, í mínum huga er það svo. Hiklaust myndi ég segja að skákkennsla ætti að vera valkostur fyrir börn á Íslandi eins og annars staðar en kannski ekki minni á Íslandi en annars staðar, einmitt vegna þess að skákin er hluti af okkar menningu. Ég myndi líka vilja bæta þeim rökum við að það sé í samræmi við þá hugmyndafræði sem hefur náð yfirhöndinni í menntakerfi okkar í dag, þann aukna skilning á mikilvægi fjölbreytileikans, og svo ég tali út frá minni hugmyndafræði, mikilvægi þess að nemendur hafi val, að við setjum ekki alla nemendur í sama form heldur finnum leiðir til þess að hver og einn geti ræktað sín áhugasvið, áhugamál og styrkleika. Ég myndi vilja nálgast málið þannig og vona að þetta mál verði til þess að hér þroskist umræðan á þann hátt að skólum verði gert kleift að bjóða nemendum í auknum mæli upp á skák og nemendur geti gengið að skákinni vísri í skólanum og í gegnum námið, kannski með þeim hætti að hér væri um val nemenda og val skólanna að ræða fremur en kannski skyldu. Leiðarstefið sé að menntakerfið okkar, grunnskólinn og jafnvel framhaldsskólinn, sé þess umkomið og hafi raunveruleg tækifæri til þess að bjóða nemendum upp á þessa grein.

Ég ætla ekki að vera langorð en ég fagna þessu máli og veit að aðrir þingmenn í þingflokki Viðreisnar gera slíkt hið sama. Ég tel að þessi tillaga sé hiklaust af hinu góða vegna þýðingar skáklistarinnar á Íslandi og tel að skákin eigi hiklaust erindi inn í grunnskólana en kannski fremur út frá hugmyndafræðinni um fjölbreytileika, fjölbreytnina og valið og að ég sæi það fyrir mér sem leið til að ná fram markmiðum að auka vægi skáklistarinnar í grunnskólunum. Ég vona að umræðan um þessa tillögu verði til þess að aukinn þungi fari í það að raungera möguleika skólanna á því að bjóða upp á slíka kennslu, að hér sé komið fram meira en það að þingheimur geti sameinast um að skákin eigi erindi inn í grunnskólana, að menntamálaráðuneytið og menntamálaráðherra og forsvarsmenn grunnskólanna búi til þann farveg að af þessu geti orðið, að nemendur eigi þess kost að geta tileinkað sér, ræktað, lært og stundað skák í grunnskólum landsins.