151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

skákkennsla í grunnskólum.

106. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem tóku til máls, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni og hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sem bæði styðja málið af eindrægni og fóru lofsamlegum orðum um tillöguna. Ég ætla ekki að telja upp alla þá eiginleika sem skákiðkun getur eflt hjá unga fólkinu en rétt til að ljúka þessu vil ég segja að það er eitt sem stendur upp úr að mínu mati og það er að skákin gefur börnunum tækifæri til að kynnast. Í skákiðkun skipta hlutir eins og tungumálaörðugleikar barnanna engu máli, það skiptir heldur ekki máli hvort einhver er út undan eða eitthvað slíkt vegna þess að öllum krökkum yrði boðið sæti við skákborðið. Það hefur komið fram í rannsóknum að þetta sé leið fyrir börn sem kannski tala annað tungumál og eiga erfitt uppdráttar í bekknum sínum eða í skólunum að kynnast hinum börnunum vegna þess að maður getur teflt, maður getur iðkað skák án þess í raun að eiga samskipti á tungumáli eða í máli við þann sem maður keppir við. Það rýfur einangrun þeirra barna sem hafa ólíkan bakgrunn eða eiga erfitt uppdráttar. Það finnst mér skipta mjög miklu máli þegar ég tala fyrir þessari tillögu.

Frú forseti. Ég veit til þess að nú þegar fer fram skákkennsla í mjög mörgum skólum en það fer í raun algerlega eftir því hver áhugi viðkomandi skóla eða skólastjórnenda er eða hvort nægilegt aðgengi sé að einhverjum þeim sem treystir sér til eða hefur áhuga á að taka að sér að kenna skákina í viðkomandi skóla. Það er algengara hér í Reykjavík vegna þess að hér geta skólastjórnendur sem hafa áhuga á því auðveldlega fundið fólk til að taka að sér skákkennslu. Þetta er erfiðara í dreifðum byggðum þar sem er ekki svo. Þetta er einnig til að jafna möguleika barna alls staðar á landinu til að geta notið skákiðkunar í sínum skóla.

Hugmyndir mínar varðandi þetta eru í raun þær að kannað verði hvort tilefni sé til að taka upp skákkennslu í skólum. Aðallega myndi ég halda að unnt væri að gera það á yngsta stigi, hvernig sem það yrði útfært, hvort það yrði eina önn eða tvær, einu sinni eða tvisvar eða þrisvar í viku. Ég held að mjög gott væri að byrja í smáum stíl, gera tilraun á þessu og sjá hvernig gangi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þessu fagnandi. Ég vona að tillagan fái góða umfjöllun í nefndinni og ég veit af því, frú forseti, að skákhreyfingin fylgist grannt með framvindu þessa máls.