152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun.

[13:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að taka undir með félögum mínum í stjórnarandstöðunni í þessu máli. Mér finnst þetta alveg fráleitt. Það eru hér lög og eftir þeim eigum við að fara. Ég hef setið í undirnefndinni sem fjallað hefur um slík mál, þ.e. ríkisborgararétt, og eins og hér hefur komið fram þá hefur verið reynt að breyta verklaginu. Það má vel vera að því þurfi að breyta, en það gerist ekki einhliða í dómsmálaráðuneytinu. Það gerist í meðförum þingsins. Og þess vegna verður hæstv. dómsmálaráðherra að hlutast til um það að Alþingi fái þessi gögn til að klára vinnu sína. Hvort ráðherrann vill svo í framhaldinu taka eitthvert samtal um það að breyta verklaginu er bara allt annað mál. Lögin eru svona í dag og eftir þeim ber að fara. Þetta er algerlega ólýðræðislegt og ógeð … Fyrirgefið, ég ætlaði að segja eitthvað dálítið ljótt. Við getum ekki látið koma svona fram við okkur af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það á ekkert með að hlutast til með þessum hætti um verklag sem er í lögum og við störfum eftir hér á Alþingi. Þannig að hæstv. dómsmálaráðherra verður að hlutast til um að við fáum þessi gögn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)