152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

skerðing í strandveiðum.

[14:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég skal halda mig við staðreyndir. Staðreyndin er þessi: Reglugerðarbreyting hæstv. ráðherra 23. desember síðastliðinn skerti þorskveiðiheimildir um 1.500 tonn. Það er staðreynd, 1.500 tonn. Þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að hann ætti von á því að þessi ákvörðun yrði leiðrétt. Spurningin er þessi: Mun ráðherra leiðrétta þessa ákvörðun eða ekki? Þetta er já eða nei spurning nánast.

Við skulum tala aðeins um fiskstofnana. Strandveiðar við Íslandsstrendur ógna ekki fiskstofnum. Ef við skoðum málefnaleg sjónarmið á bak við það að fara að skerða strandveiðar þá ætti meðalhófið að segja okkur að þær ættu að vera frjálsar raunverulega. Það er það sem þetta snýst um. Þær ógna ekki fiskstofnum. Og að tala um einhverja almenna skerðingu eða halda því fram að þessi 1.500 tonn muni bjarga fiskstofnum Íslands er bara hlægilegt. Það vita það allir. (Forseti hringir.) Og annað, varðandi þennan skiptimarkað á loðnu, það er eitt mesta „skam“ (Forseti hringir.) sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Þar var skipt á 35.000 tonnum af loðnu fyrir 3.000 tonn af þorski. (Forseti hringir.) Það mál á heima hjá samkeppnisyfirvöldum og ég vona að sú rannsókn hefjist sem fyrst.