152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna veikinda sat ég ekki alla fundi nefndarinnar þegar hún var að fjalla um málið þannig að ég verð að hafa þann fyrirvara á um það sem ég segi hér, en las að sjálfsögðu allar umsagnir sem bárust um málið. Ég held að ég treysti mér þó til að segja að það hafi ekki verið rætt að flytja málaflokkinn í heild sinni yfir til félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytis enda skiptir auðvitað máli að það ráðuneyti sem fer með umsýslu, hvort heldur er hælisleitenda og flóttamanna hér á landi eða bara hina almenna umsýslu um þá erlendu ríkisborgara eða erlendu aðila sem hingað koma — að það sé á einni hendi. Það sem hér er verið að gera er að færa þjónustuna út úr því ráðuneyti enda hefur verið gagnrýnt um langan tíma að þjónusta við það fólk sé á hendi þeirra sömu og sjá um það að gefa út dvalarleyfi eða annars konar leyfi. Að því sögðu skiptir auðvitað máli að dómsmálaráðuneytið, sem fer með þau mál, vinni sína vinnu og fylgi þeim lögum sem sett hafa verið á Alþingi og að öll sú umsýsla sé góð og vönduð.