152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna en vil um leið segja að ég fyllist vorkunn þegar ég hlusta á þingmanninn þurfa að fara í það hlutverk að réttlæta svona hreina og klára pólitíska aðgerð og reyna að setja hana í faglegan búning. Það virðist vera eins vel gert og hægt er með þau verkfæri sem hv. þingmaður hefur í höndum og hefur spilað þokkalega vel úr. Engu að síður geri ég mér grein fyrir því að fyrirstaðan er ekki mikil hjá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum, það er verið að þenja út báknið. En við erum með þriðja flokkinn í ríkisstjórn sem fór m.a. í kosningabaráttu undir slagorðunum „Báknið burt“. Fyrstu aðgerðirnar eru svo að stækka báknið, auka útgjöld ríkissjóðs upp á mörg hundruð milljónir króna án þess að blikna og án þess að hafa, að mínu mati, upphaflegu faglegu sýnina til grundvallar, af hverju menn vilja fara þessa leið.

Ég hef margundirstrikað að ég held að stjórnvöld, ríkisstjórn og þingmeirihluti hverju sinni, verði að hafa ákveðið svigrúm til að breyta Stjórnarráðinu, bæði eftir þeirri pólitísku stefnu sem mótuð er, m.a. í stjórnarsáttmála, en líka að líta í kringum sig varðandi umhverfið og breytingar sem verða. En mér finnst ekki útgangspunkturinn þurfa að vera að fjölga ráðherrum bara til þess að fjölga þeim, bara til að klappa Framsóknarflokknum á bakið. Framsóknarflokkurinn þurfti að fá fjórða ráðherrann af því að hann vann kosningasigur, svo við tölum bara hreint út. Ég hefði gjarnan viljað sjá ákveðnar breytingar sem verið er að tala fyrir, en þess vegna hefði verið hægt að gera þær með því að fækka ráðuneytum. Áhyggjur mínar snerta það m.a. að ég tel að verið sé að draga bitið úr stjórnsýslu okkar Íslendinga, sem er ákveðið öryggistæki, líka fyrir almenning, snertir almennt réttaröryggi fólks í samfélaginu. Það er öryggisatriði að stjórnsýslan virki fyrir hinn almenna borgara og fyrirtækin í landinu. (Forseti hringir.) Það er það sem ég óttast með þessum breytingum þó að ýmislegt sé ágætt þarna, eins og ég mun koma inn á í síðara andsvari. (Forseti hringir.) Þökk sé ríkisstjórninni, sem nýtti þó tímann, einhverjar breytingar eru til bóta. (Forseti hringir.) En í heildina er þetta að mínu mati vanhugsað mál.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill beina því til hv. þingmanna að þeir virði tímamörk.)