152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo við undirstrikum það aftur: Ríkisstjórn hvers tíma getur breytt kerfinu. Þessi ríkisstjórn, með Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Vinstri grænum, hefur ákveðið að fjölga ráðherrum, auka ríkisútgjöld og ekki endilega á mjög gegnsæjan hátt. En þetta er þeirra mat og fyrsta skref ríkisstjórnarinnar, að auka útgjöld ríkissjóðs. Ég vara við því, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, að eftir hverjar kosningar verði umbylting á öllu Stjórnarráðinu, í hvert sinn sem ný ríkisstjórn kemur til starfa. Ég vara við því að það verði alltaf, eins og í þetta sinn, bara þrír ráðherrar, formenn flokkanna — er það tilviljun? spyr ég — sem halda sínu og síðan sé verið að munstra eftir því hvaða konfektmoli tilteknum einstaklingum þykir bestur. Eigum við að setja þennan og þennan saman? Sumum finnst piparmintan best en aðrir taka karamelluna eða marsípanið. Þetta hefur verið svolítið þannig.

Við þurfum að hafa svigrúm til að aðlaga stjórnsýsluna að nútímanum, að umhverfinu, að atvinnulífinu, að heimilunum og fjölskyldunum í landinu. En um leið og ég segi það verðum við líka að hafa ákveðinn stöðugleika og fyrirsjáanleika og við þurfum að hafa ráðdeild í rekstri. Hefðu ríkisstjórnarflokkarnir sagt fyrir kosningar: Við ætlum að fjölga ráðherrum um einn og við ætlum að auka ríkisútgjöld um að minnsta kosti 500 millj. kr.? Ég spyr bara. Það hefði enginn af stjórnarflokkunum þorað að segja þetta fyrir kosningar. En þetta er veruleikinn. Auðvitað eiga einhverjar af þessum breytingum eftir að nýtast, nema hvað, eftir einar lengstu stjórnarmyndunarviðræður í sögunni. Ég nefni breytingar í þágu útlendinga, í þágu atvinnulífsins og í þágu menningar. Nema hvað? En mér finnst það vond byrjun hjá ríkisstjórninni að fara gagngert í það að fjölga ráðherrum, hafa pólitísku (Forseti hringir.) sýnina fyrst og láta hina faglegu koma síðar, allt vegna þess að það er einn flokkur í ríkisstjórninni sem (Forseti hringir.) krafðist þess að fá fleiri ráðherraembætti. Og síðan er púslað í kringum það. Mér finnast það ekki (Forseti hringir.) góð vinnubrögð, hvað þá að auka útgjöld ríkissjóðs upp á hundruð milljóna. Báknið burt, var sagt.