152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Tillagan er flutt af hæstv. forsætisráðherra. Hvað varðar gestakomur og umsagnir til nefndarinnar í umfjöllun sinni um málið. Þá vísa ég í nefndarálit meiri hlutans á þskj. 349. Eins og þingheimur veit þá gengu í gildi árið 2011, fyrir rétt rúmum tíu árum, ný lög um Stjórnarráð Íslands sem höfðu það að markmiði að styrkja Stjórnarráðið, m.a. með því að fækka ráðuneytum og stækka þau. Það var gert til þess að efla stjórnsýsluna, til að styrkja fagleg vinnubrögð og efla sérþekkingu á málaflokkum innan Stjórnarráðsins og láta það vinna betur saman. Til grundvallar þeim breytingum lá ítarleg skýrsla sem bar heitið Samhent stjórnsýsla, sem hafði verið skilað til þáverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, við lok árs 2010. Á þeirri miklu vinnu, sem unnin hafði verið í þeirri nefnd, byggðu tillögurnar og breytingarnar á lögunum og síðan sameining ráðuneyta sem fylgdi í kjölfarið að einhverju leyti.

Það liggur fyrir og er ekki dregið í efa af þeirri sem hér stendur að það er í valdi forsætisráðherra sem verkstjóra í Stjórnarráðinu að hlutast til um skiptingu verkefna og skipan ráðuneyta og gera það auðvitað í samstarfi við formenn þeirra flokka sem eru í stjórnarmeirihluta á hverjum tíma. Framkvæmdarvaldið hefur stjórn á þessu máli og um það er ekkert efast hér. Það varð úr, að kröfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar stjórnarráðslögin voru til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi fyrir rúmum áratug, að með slíkum breytingum fylgdi þingsályktunartillaga eins og sú sem hæstv. forsætisráðherra flutti, til þess að þingið ætti kost á því að fjalla um málið af sinni hálfu. Því er málið hér til umfjöllunar og hefur verið til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það kom margt fram í umfjöllun nefndarinnar og við fengum ýmsar athugasemdir og ábendingar um bæði það sem umsagnaraðilar voru ánægðir með og líka um það sem betur mætti fara eða þar sem umsagnaraðilar töldu að stjórnarmálefnum hefði í rauninni verið komið fyrir með röngum hætti eða héngju ekki saman eins og þau töldu að best væri. Gerð er grein fyrir þessum ábendingum og það má auðvitað lesa þær í umsögnum og gerir meiri hluti nefndarinnar grein fyrir þeim að einhverju leyti í nefndaráliti sínu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé á ábyrgð þeirra sem styðja ríkisstjórnina, þ.e. þingmanna stjórnarflokkanna þriggja, að ljá þessu máli stuðning sinn þannig að það fari þá í gegn með vélarafli meiri hlutans, ef ég má komast þannig að orði. Ég hef alls konar skoðanir á því sem verið er að gera en ég geri í sjálfu sér ekki efnislegar athugasemdir við það hvað lagt er til af því að ég tel það einfaldlega vera á ábyrgð meiri hlutans að sjá um þessa framkvæmd og gera hana með þeim hætti að sómi sé að og að vinnubrögð séu í lagi.

Það var ýmislegt þarna sem mér þótti ankannalegt. Ég ætla bara að nefna eitt dæmi, þ.e. Íslandsstofu. Íslandsstofa er enn þá undir utanríkisráðuneytinu en það á samt að stofna nýtt ráðuneyti sem er í raun og veru eins og Íslandsstofuráðuneyti af því að þar er menning, ferðaþjónusta og annað slíkt, sem hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur fer fyrir. Þannig að það eru ýmsir lausir endar í þessari framkvæmd sem bera það með sér að kannski hafi nú eitthvað verið teflt um pólitíska stöðu eða eitthvert valdajafnvægi innan Stjórnarráðsins, ég veit það ekki. En þetta er eitt dæmi af nokkrum um þessa framkvæmd.

Það sem mér finnst skipta öllu máli er að innan Stjórnarráðsins starfi fagleg, góð stjórnsýsla þar sem sérþekkingu er vel fyrir komið, þar sem passað er upp á stofnanaminni, þar sem gætt er að því að þjónusta við borgarana sé að öllu leyti til sóma og í samræmi við stjórnsýslurétt og gegnsæi og annað slíkt, og að Stjórnarráðið sé einhvers konar fasti í því hvernig við starfrækjum framkvæmdarvaldið en líka bara hvernig við starfrækjum pólitíkina hér á landi. Auðvitað þurfa allir nútímavinnustaðir að vera sveigjanlegir og hreyfanleiki starfsfólks þarf að vera fyrir hendi. Auðvitað þarf að gæta að starfskjörum og réttindum allra, og ég geng bara út frá því að það sé gert og verði gert. En við stöndum samt í þessu máli að einhverju leyti frammi fyrir og horfumst í augu við þá staðreynd að Stjórnarráð Íslands er ekki einn vinnustaður, það er margir vinnustaðir. Í mínum huga ætti það að vera einn vinnustaður. Stjórnarráð Íslands ætti að vera á einni kennitölu þó að því væri skipt í mörg ráðuneyti, og sett saman af einingum sem væru sjálfbærar að því leyti að þær hefðu ákveðin stjórnarmálefni á sinni könnu. Ef framkvæmdarvaldið vildi, eða nýjar ríkisstjórnir, væri hægt að færa til einhver einhverja málaflokka án þess að það þyrfti að snúa öllu á hvolf, eins og þarf svolítið að gera núna með stofnun tveggja nýrra ráðuneyta og tilfærslu mjög margra málaflokka á milli ráðuneyta, meira að segja þannig að mennta- og menningarmálaráðuneytið, bráðum sáluga, er komið út um allt í hinu nýja Stjórnarráði. Margt af því eru ágætistillögur, tel ég, en þetta er samt ofsalegt rót. Þetta er mikið rót á þekkingunni sem safnast hefur saman og sem mannauðurinn í Stjórnarráðinu ber með sér og í sér og er hætta á því að það verði rof. Það er hætta á því að það komi glufur. Það er hætta á því að eitthvað gleymist. Það er hætta á því að þegar tiltekið málefni fer á milli ráðuneyta að ef sérfræðingurinn var ekki í fullu starfi í því málefni þá verði eitthvað eftir.

Það eru alls konar svona möguleikar í þessari stöðu vegna þess að stjórnsýslan okkar er lítil, við erum fá og við þurfum oft að smyrja ansi þunnt. Margir verða generalistar, alveg eins og þingmenn verða óhjákvæmilega í stjórnsýslunni, eða eru með kannski heilu málaflokkana á sinni könnu þar sem það er alltaf sami maðurinn sem hittir einhverja 10–20 erlendra sérfræðinga sem sjá um málefnin í öðrum ráðuneytum eða í samstarfslöndunum. En þannig er þetta og ég vil fyrst og fremst nefna það að ég tel mikilvægt við þessar breytingar að þess sé gætt alveg sérstaklega að sérþekking embættismanna og starfsfólks ráðuneytanna fari ekki forgörðum og að þess sé gætt að við flutning málefna sé það gert með þeim hætti að ekki myndist rof eða annað í þjónustu í þeim málaflokkum.

Ástæða þess að ég nefni hér í upphafi í mínu áliti breytingarnar og nýju lögin um Stjórnarráðið og skýrslunnar sem lágu þeim til grundvallar 2010–2011 er fyrst og fremst sú að hugsunin var svo skýr í þeim breytingum. Það var auðvitað í kjölfar hrunsins og það var alveg ljóst að það voru ákveðnir málaflokkar og ákveðnir ferlar í Stjórnarráðinu sem höfðu brugðist og þurfti að þétta, það þurfti að bæta. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi mikið breyst hvað það varðar á síðustu tíu árum. Það þarf að halda vel utan um stóra málaflokka. Við vitum t.d. að bæði heilbrigðis- og félagsmálin verða að vinna saman og það er kannski vísir að því að einhverju leyti í nýju innviðaráðuneyti þar sem verið er að splæsa saman fleiri málaflokkum en áður hefur verið gert á því sviði. Hvers vegna gerum við það? Við gerum það m.a. vegna þess að stjórnsýslan, Stjórnarráðið, ráðuneytin, verða að hafa bolmagn til þess að gæta almannahagsmuna. Við vitum öll hvernig sérhagsmunir, sérstaklega tiltekinna atvinnugreina, hafa gengið um í Stjórnarráðinu í gegnum söguna. Við vitum hvernig hagsmunaaðilar hafa verið fengnir til að skrifa drög að reglugerðum, jafnvel drög að frumvörpum og hafa haft þar tögl og hagldir, vil ég segja. Það er kannski einfaldara að gera það þegar þú ert með lítið ráðuneyti sem hefur kannski ekki mikið bolmagn, hvort sem það heitir sjávarútvegsráðuneyti annars vegar eða landbúnaðarráðuneyti hins vegar. Við þekkjum öll þessi dæmi. Við þekkjum söguna. Þess vegna er styrkur fólginn í stærðinni. Það veldur mér áhyggjum að við séum að fara af þeirri braut rúmum áratug eftir að við gerðum breytingarnar í hina áttina. En eins og ég sagði áðan; það er á ábyrgð meiri hlutans, það er á ábyrgð framkvæmdarvaldsins og ég ætla ekki að axla þá ábyrgð fyrir þau.

Það kom vel fram í umfjöllun nefndarinnar um þingsályktunartillöguna, og margir nefndu þetta, bæði utan og innan ráðuneyta, að í Stjórnarráðinu, þrátt fyrir smæð þess að einhverju leyti, hafa samt verið reistir þar býsna háir múrar. Það er eiginlega með ólíkindum að sjá hvernig þessi síló, eins og það er stundum kallað, við getum þess vegna kallað það súrheyrsturna, eru á stangli þegar það ætti í rauninni að rífa það allt og láta fólk vinna þvert á ráðuneytin. Ég veit að það er meira um teymisvinnu, ég veit að það er meira um samstarf á milli ráðuneyta og auðvitað eru starfandi ráðherranefndir í ákveðnum málaflokkum. En stóra verkefnið er að brjóta niður þessa múra og búa til vinnuumhverfi og stjórnsýsluumhverfi þar sem þú getur farið þvert á vegna þess að þá bætir þú umfjöllunina og þú bætir þjónustuna, þú bætir jafnvel, og vonandi, skilvirkni ráðuneytanna á sama tíma.

Eins og fram hefur komið kom hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sér saman um að biðja ráðherra um stöðuskýrslu um innleiðingu breytinganna eigi síðar en 1. maí næstkomandi. Við erum öll sammála um að það sé hlutverk nefndarinnar að fylgja þessum breytingum eftir og gæta að því að innleiðingin — þótt ég viti að það sé byrjað að undirbúa hana mun hún fara formlega fram væntanlega eftir að þessi tillaga hefur verið samþykkt og nýr forsetaúrskurður gefinn út. Þá er mjög gott að geta séð hvort breytingaferlið skilar sér, hvort allt gengur í rauninni eins og það þarf að ganga svo ekki verði hökt eða hik í Stjórnarráðinu eða í stjórnsýslunni.

Frú forseti. Ég hygg að ég láti þetta duga um nefndarálitið sem ég ein undirrita að þessu sinni. En mér finnst mikilvægt að við hugum að samfellunni í þessum breytingum og að við hugum að því til hvers þær eru. Ég er ekki að gera lítið úr þeim hugmyndum sem hér er unnið með en ég hygg hins vegar að allir sjái að pólitískt koma þær sér mjög vel fyrir þriggja flokka ríkisstjórn.