152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:47]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir það sem hann deildi með okkur og sömuleiðis hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir það sem hún deildi með okkur. En ég ætla að deila með ykkur hálfgerðum innherjaupplýsingum. Ég þarf ekki að kvarta yfir þeim viðtökum sem ég hef fengið í mínum erindrekstri fyrir til að mynda tónlistargeirann, STEF, FTT, Samtón, ÚTÓN og Bandalag íslenskra listamanna. Ég ætla að upplýsa ykkur um það að sú skoðun hefur verið mjög útbreidd á vettvangi hinna skapandi greina að það væri ekki skapandi greinum í vil að vera hluti af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hvers vegna ekki? Við höfum ítrekað upplifað það á síðustu 20 árum, eða alla vega síðan ég kynntist því, og menntamálaráðherrar, m.a. Illugi Gunnarsson og fleiri, hafa viðurkennt það, að í hinu krefjandi starfi mennta- og menningarmálaráðherra hefur í rauninni sirka 10% tími og orka farið í menningarmálin, hitt fer í hið risastóra skólamálaráðuneyti. Ergo: Menningin hefur verið lítil 10% skúffa í risastóru skólamálaráðuneyti og miðað við framvindu þeirra mála, þess sístækkandi málaflokks og vægis hans í hagkerfinu, þá hlaut það að vera óásættanlegt. Um það voru a.m.k. tveir mennta- og menningarmálaráðherra sammála okkur á vettvangi skapandi greina. Við báðum um að þessu yrði skipt upp. Við vildum hafa menningarmálaráðherra í fullu starfi. Þetta er kannski skref í þá átt.