152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:56]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er ein af þeim sem skrifa undir meirihlutaálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu mikilvæga og stóra máli. Fyrir mitt leyti þá finnast mér þessar breytingar góðar og vel ígrundaðar þó að ég skilji mætavel og beri mikla virðingu fyrir því að auðvitað er málið þess eðlis að fólk hefur á því margar skoðanir, jafnvel 63 skoðanir í þessum sal ef hver og einn yrði spurður. En almennt séð og heilt yfir tel ég að þessar breytingar séu vel ígrundaðar og eru í rauninni sprottnar úr þeirri, má segja, lúxusstöðu sem gerist ekki alltaf hér í okkar stjórnmálaumhverfi að það eru sömu flokkar og meira að segja sömu einstaklingar sem halda áfram samstarfi inn á nýtt kjörtímabil. Í þeirri stöðu sem ríkisstjórnarbreyting í kjölfar kosninga býður upp á er hægt að gera breytingar byggðar á reynslu liðinna ára sem ég held að séu til góðs og gefst nefnilega ekki oft færi á. Ég get vel skilið pælingar um hvort það sé eðlilegt að þrír aðilar, í þessu tilfelli formenn flokkanna, sem setjist þarna niður og taki þessa ákvörðun í einhvers konar tómarúmi, heyrist mér að verið sé að ýja að hér, það sé á einhvern hátt óeðlilegt. Mér finnst það ekki og ég ætla að leyfa mér að segja að í raunheimum, miðað við hvernig stjórnmálin búa til þetta kerfi sem við búum við í dag, þá er þetta svo gott sem eini glugginn sem er hægt að nýta til þess að gera einhverjar alvörubreytingar. Ástæðan fyrir því að ég vil nefna þetta er að breytingar sem þessar eru eitt mikilvægasta stjórntæki framkvæmdarvaldsins til þess að fylgja eftir pólitískum áherslum sínum. Fyrir mér er það ekki eitthvað sem er til vansa eða ekki gott. Ríkisstjórnin er að sjálfsögðu pólitísk og þó að hún þurfi vitanlega í störfum sínum að passa upp á allar faglegar forsendur eins og gengur og gerist þá er það hlutverk þeirra sem í henni sitja, sem þau hafa lýðræðislegt umboð til, að leggja pólitískar áherslur. Þá er jafnframt skylda þeirra að búa svo um kerfið að það sé sem best úr garði gert til að láta þær áherslur verða að veruleika.

Af þeim breytingum sem núna liggja fyrir tel ég persónulega einna mikilvægast að byggja almennilega undir loftslagsmál ýmiss konar, þó að það hafi margoft komið fram í máli fulltrúa ríkisstjórnarinnar að loftslagsmál komi flestum ráðuneytum við, þau eru verkefni dagsins í dag og dagsins á morgun. Ég held að þar skipti ákaflega miklu máli að taka orkuna og umhverfið og setja undir sama hatt. Það segi ég því ég held að þar skipti ofboðslega miklu máli að í staðinn fyrir að stilla því sífellt upp sem andstæðum pólum þá ætti frekar að skoða samspil og jafnvægi á milli nýtingar og verndar. Ég held að það sé einmitt með því samspili og því samtali sem við eigum möguleika á að stíga farsæl skref með bæði þessi sjónarmið við borðið og, eins og ég segi, þau séu undir sama hatti. Ég held að það sé mjög farsæl breyting — ég get svo sem ekki sagt hvort hún verði farsæl en ég held að hún sé vel ígrunduð og er spennandi og ég hlakka til að sjá hvað verður úr því.

Önnur stór breyting sem ég held að sé líka algjört lykilatriði er að taka nýsköpunina og setja hana svona afgerandi með vísindum, rannsóknum og iðnaði. Þar erum við bara að mæta kalli fjórðu iðnbyltingarinnar um hvers sé krafist af okkur til að taka það föstum tökum. Ég held að það hafi verið mjög vel gert. Ég er að sama skapi mjög spennt fyrir að sjá hvernig það ráðuneyti mun spila úr þeirri stöðu til að undirstrika sem mest þau tækifæri sem bíða okkar í þessum málaflokkum og er einfaldlega Íslandi framtíðarinnar nauðsynlegt til þess að við höldum áfram að vaxa og dafna.

Annað sem mig langar til að nefna, sem hefur kannski minna farið fyrir, er að ég trúi því að það að færa húsnæðis- og mannvirkjamál ásamt skipulagsmálum inn í það sem kallast innviðaráðuneyti sé gríðarlega mikilvægt skref. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá mörgum að ákveðin óánægja hefur verið með hvað skipulagsmál og byggingarmál hafa tekið langan tíma. Þarna eru öll stig samfélagsins undir og mismunandi stofnanir sem þurfa að tala saman og ég held að það muni hjálpa til, liðka til við að stytta biðlistana, stytta boðleiðir, lækka kostnað sem slíku fylgir, að byrja á því að hafa þessi mál innan sama ráðuneytis, það held ég að sé einnig mjög spennandi.

Framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, fór að öðru leyti yfir það sem fór fram hjá nefndinni og ég vil nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir gott samstarf í þessu máli. Það eru skiptar skoðanir á breytingum. Það segir sig sjálft. En hv. þingmaður reifaði ágætlega helstu sjónarmið og ég ætla ekki að endurtaka það hér en fyrir mitt leyti var þó ekki niðurstaðan sú að það væri algjörlega hafið yfir allan vafa að þetta væri ekki nógu vel ígrundað, enda skil ég ekki málið öðruvísi en að ef slíkt atriði hefði komið upp þá hefði verið fullur vilji til þess að skoða það og bregðast við. Það eru í meðferð málsins dæmi um atriði sem var bent á að væri kannski ekki heppilegt að færa á annan stað og við því var einfaldlega brugðist. Þannig að ég hef ekki upplifað neitt annað í þessu máli annað en að þarna sé verið að reyna að búa til stjórntæki sem getur hvað best mætt pólitískum áskorunum þessarar ríkisstjórnar og framtíðarinnar, samtímans, á eins skynsamlegan hátt og hægt er. Að því sögðu þá er auðvitað hægt að sýna því skilning að ekki eru allir sammála um þetta en ég held að þetta sé einfaldlega mjög mikilvægt stjórntæki ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því að heyra að fulltrúar minni hlutans í nefndinni, bæði hv. þm. Sigmar Guðmundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, taka það skýrt fram að það er enginn að segja að þessi réttur liggi ekki þarna. Ég held að það sé gott að hafa það alveg skýrt að það sé á hreinu. En að sjálfsögðu þarf að vanda til verka og að sjálfsögðu þarf að hlusta á mismunandi sjónarmið og að sjálfsögðu þarf að bregðast við þeim ef ekki er verið að stefna í rétta átt. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að það var samhljómur í nefndinni fyrir því að við myndum fá stöðumatsskýrslu, ég held að það sé orðað þannig, frá forsætisráðherra eftir um þrjá mánuði með fyrstu sýn á það hvernig þessar breytingar eru að ganga, hvort það sé einhvers staðar hægt að benda á galla við þær varðandi þjónustu við fólkið í landinu og gagnvart þeim verkefnum sem ríkisstjórninni ber að sinna. Ég held að það sé mjög skynsamlegt og muni gagnast vel. En að öðru leyti held að þetta mál hafi verið unnið með eins miklum ágætum og hægt er og kannski allt í lagi að undirstrika að það er forsætisráðherra sem ber á þessu ábyrgð og hafði að sjálfsögðu til þess stuðning og samtal og ráðgjafa í ráðuneyti sínu sem hafa það hlutverk. Ég er bjartsýn á að þessar breytingar verði til góðs.