152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég kann að meta þá heiðarlegu framsetningu að um pólitískt mál sé að ræða, að forsætisráðherra beri ábyrgð á því að leggja breytingarnar fram, og áhersluna á eftirfylgni með málinu. Ég hef reynslu af lögum um opinber fjármál, þar sem ég sit í fjárlaganefnd, og tel þetta því kannski vandasamt. Sem dæmi eru ársskýrslur ráðherra gjörsamlega vitagagnslausar. Ástæðan fyrir því að þær eru gagnslausar er sú að markmiðssetningin er rosalega ónákvæm. Það vantar kostnaðarmat, ábatagreiningu o.s.frv. til að við vitum hvort fjármunirnir sem við leggjum til skili sér í raun samkvæmt stefnu stjórnvalda. Af því að slíkt liggur ekki fyrir er hægt að segja hvað sem er í ársskýrslum ráðherra. Það er hægt að klappa öllum á bakið fyrir að standa sig alveg rosalega vel þrátt fyrir að markmiðin sem sett eru sem viðmið standist ekki, þau eru réttara sagt bara strokuð út og þeim er breytt þannig að önnur viðmið eru notuð þegar ekki er hægt að sýna fram á að hin fyrri hafi skilað árangri — ef það var þá yfirleitt mögulegt að þau gætu skilað árangri.

Við þekkjum það mjög vel í umræðunni um fjárlögin, um fjármálaáætlun, að þau hafa einfaldlega verið léleg. Þegar sagt er í þingsályktunartillögunni að henni sé ætlað að brjóta ósýnilega múra stofnanamenningar og meiri hlutinn segir að það skipti meira máli að innan Stjórnarráðsins fari fram virk samvinna og samstarf, frekar en að þessir ósýnilegu múrar séu vandamálið, þá finnst mér mjög áhugavert að ekki sé útskýrt hvert vandamálið er til að byrja með, til þess að við getum metið það eftir á hvort vandamálið hafi verið leyst. Það vantar að segja okkur hvert vandamálið er, hvaða ósýnilegu veggi á að brjóta niður.