152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:22]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Nú tek ég mið af umsögn Þroskahjálpar um þetta mál. Þar kemur fram að þau hafi miklar áhyggjur af þessu og því að Ráðgjafar- og greiningarstöð fari undir barna- og menntamálaráðherra. Þau vilja að Ráðgjafar- og greiningarstöð sinni fullorðnum meira og þau eru að stefna í þá átt, þannig að þetta skýtur skökku við fyrir þau hjá Þroskahjálp. Ef maður hugsar um þekkingu, samfellu í þjónustu og allt það þá finnst mér einhvern veginn eins og þetta séu svör sem er bara verið að skoða eftir á og að þetta sé ekki nægilega vel ígrundað fyrir þennan viðkvæma hóp. Þetta er ekki það sama og menntamálin og allir þessir málaflokkar, þetta er rosalega sérstök þjónusta og mjög mikilvægt að samfella sé í henni. Ég er því ekki alveg sannfærð. Mig langar líka að vita hvernig á að mæla árangur af þessu, hvaða kvarðar verða notaðir og hvaða grunnlínu er miðað við, eða hvort verið sé að gera eitthvað slíkt.