152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom inn á innviðaráðuneytið og þá auknu skilvirkni o.s.frv. sem á að verða á húsnæðismarkaði og í leyfismálum og ýmislegt svoleiðis vegna þess að þetta á að setja á sama stað. Í umsögn Verkfræðingafélags Íslands um fjárlög 2022 er talað um þetta nýja innviðaráðuneyti og þar segir, með leyfi forseta:

„Í ríkisstjórnarsáttmála segir um húsnæðismál: „Unnið verður að því að endurskoða regluverk, innleiða stafræna stjórnsýslu í auknum mæli og einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka byggingarkostnað án þess að það sé á kostnað gæða og algildrar hönnunar.“ Það getur verið gott að einfalda hluti og skoða regluverk á hverjum tíma. Hins vegar er vandamál íslensks byggingariðnaðar ekki regluverk heldur slæleg vinnubrögð og fúsk. Það er því nauðsynlegt að skoða þennan málaflokk út frá því sjónarmiði að góð hönnun og vönduð vinnubrögð eru forsenda þess að raunkostnaður neytandans lækki. Í ljósi þessa er erfitt að skilja framangreindan texta úr ríkisstjórnarsáttmálanum. Nær væri að geta um mikilvægi staðla í íslenskum byggingariðnaði, hlúa að gerð þeirra og tryggja fjármagn til þess verks.“

Þá rifjast upp fyrir manni hvernig Nýsköpunarmiðstöðin var lögð niður og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins fór eitthvert fram og til baka og alls konar skemmtilegheit. Ég hef nefnilega alveg áhyggjur af því, vegna þess að kvartanirnar sem við höfum heyrt, sérstaklega frá framkvæmdaraðilum, hafa verið um þetta fjárans umhverfismat, að það sé alltaf að þvælast fyrir. En þeir aðilar sem koma og útskýra þetta fyrir okkur segja að umhverfismatið sé einfaldlega alltaf rangt framkvæmt og ef sveitarfélög og framkvæmdaraðilar myndu gera það rétt myndu þau ekki alltaf lenda í vandræðum með það. Það er t.d. tilvísun í það fúsk sem er verið að tala um. Ef innviðaráðuneytið kemur þessu einhvern veginn betur fyrir, að hætta þessu fúski og það leiðir til skilvirkni, þá er það bara gott mál og blessað. (Forseti hringir.) En maður sér það ekki endilega af þingsályktunartillögunni eða nefndarálitinu.