152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta er allt hið mesta furðumál, bæði vegna þess hvernig til þess var stofnað af hálfu ríkisstjórnarinnar en einnig vegna forsögu málsins. Það byggir á lögum um Stjórnarráðið frá árinu 2011. Það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem innleiddi það frumvarp í lög eftir umtalsverðar umræður hér í þingsal, umræður sem oft voru kallaðar málþóf stjórnarandstöðunnar á þeim tíma sem var m.a. skipuð af þáverandi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, blessuð sé minning þeirra. Þeir höfðu uppi miklar aðvaranir um hvert Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar stefndi með því frumvarpi. Ég tók talsverðan þátt í þeim umræðum og lýst var athugasemdum við fjölmörg atriði þessa máls.

Svo gerist það að allt annars konar ríkisstjórn, að vísu með Vinstrihreyfinguna – grænt framboð innan borðs, ákveður að nýta sér þessa löggjöf út í ystu æsar og gera það ekki hvað síst með þeim hætti að nýta þau ákvæði sem voru hvað harðast gagnrýnd þegar vinstri stjórnin leiddi þetta í lög á sínum tíma. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Var lítið að marka andstöðu núverandi formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við málið á þeim tíma og annarra þingmanna flokkanna sem nú eru í ríkisstjórn eða er lítið að marka áherslur þeirra núna? Þeir fara þvert á það sem varað var við dag eftir dag í löngum umræðum um frumvarp ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég held reyndar að við þurfum ekkert að velta þessu mikið fyrir okkur því að við sjáum hvernig til þessarar ríkisstjórnar var stofnað. Við sáum það fyrir fjórum árum þegar ríkisstjórnin var kynnt sem ríkisstjórn sem ætlaði ekki að vera pólitísk stjórn þannig séð, ég held meira að segja að hæstv. fjármálaráðherra hafi orðað það þannig að þetta væri ekki ríkisstjórn um stór pólitísk álitamál. Þetta væri ríkisstjórn um stöðugleika. Og hvaða hugtak fundu þau upp? Já, ríkisstjórn með breiða skírskotun, ríkisstjórn með fulltrúa flokka frá vinstri til hægri sem átti að þýða að allir kjósendur gætu meira og minna verið sáttir af því að þeir ættu sína fulltrúa óháð því hvað þessir fulltrúar gerðu svo.

Þannig var til þessarar ríkisstjórnar stofnað og þannig starfaði hún, sem kerfisstjórn sem eftirlét stjórnkerfinu að stjórna. Það sást glöggt á fyrstu þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir fjórum árum þar sem meiri hluti þeirra frumvarpa sem ráðherrar lögðu fram voru frumvörp frá síðustu ríkisstjórn sem nýju ráðherrarnir höfðu einfaldlega fengið á borðið hjá sér þegar þeir mættu til vinnu og verið sagt að flytja í þinginu. Þannig stjórnaði þessi ríkisstjórn fyrstu tvö árin. Svo kom þessi faraldur og þá lét hún sér vel líka að vera í skjóli hans en heldur nú áfram á sama grunni, á grundvelli þess að vera kerfisstjórn.

Það sem þessir flokkar vilja þó fyrst og fremst fá fyrir stjórnarsamstarfið, ef það er ekki að breyta stefnu landsmálanna með einhverjum pólitískum áherslum, eru ráðherrasæti og hlutverk fyrir sína liðsmenn í ráðuneytum, í hinum ýmsu nefndum og ráðum o.s.frv. Stjórnarmyndunarviðræður mörkuðust augljóslega mjög af því. Þær tóku furðu langan tíma í ljósi þess að sömu flokkar höfðu ákveðið að starfa áfram saman, höfðu til þess fylgi. En stjórnarmyndun tók langan tíma og þegar stjórnarsáttmáli birtist loks þá var ekki þar að finna neinar skýringar á því hversu langan tíma hefði tekið að koma þessari stjórn saman eða halda áfram stjórnarsamstarfinu. Það var bara meira af því sama og aftur kerfismál frá kjörtímabilinu á undan.

En svo sáum við ráðherralistann og verkaskiptinguna, hvaða nefndir, hvaða valdsvið heyrði undir hvern og einn ráðherra. Þá mátti öllum vera ljóst hvað tafði orminn langa. Það var að það reyndist svo erfitt að skipta þessum verkefnum, svo erfitt að til varð þetta furðumál sem við fjöllum hér um, mál sem felur í sér tilfærslur sem ráðherrarnir sjálfir og ekki bara ráðherrarnir heldur formenn stjórnarflokkanna virtust ekki almennilega vera með á hreinu hvernig ættu að skiptast þegar stjórnin var kynnt. Það var ekki einu sinni ljóst hvað ráðuneytin ættu að heita. Það tók breytingum frá einu skjali til annars í nokkrum tilvikum. Það var þó augljóst að umræðurnar hefðu snúist um vandræðagang við skiptingu verkefna eins og þau ættu formlega að liggja hjá hverjum flokki um sig. Þá var gripið í frumvarp og lög Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2011 sem tveir af þremur stjórnarflokkum, eða a.m.k. formenn þeirra, höfðu barist svo hart gegn og gagnrýnt svo mjög, og sérstaklega gripið til þeirra úrræða sem þar birtust og höfðu verið mest gagnrýnd.

Frú forseti. Ég skil vel að Vinstrihreyfingin – grænt framboð láti sér vel líka, enda var flokkurinn í ríkisstjórn þegar lögin voru sett. VG, held ég mér sé óhætt að segja, vill nota tækifærið þegar það gafst til að nýta vald. Það hentaði í tíð vinstri stjórnarinnar að auka valdsækni ríkisstjórnar og það hentar þeim núna þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð situr í skjóli Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks annað kjörtímabilið í röð. En hvers vegna sætta hinir flokkarnir sig við það sem þeir vöruðu svo mjög við og gagnrýndu á sínum tíma? Það er væntanlega af sömu ástæðu og þeir sætta sig við að VG leggi línurnar pólitískt í þessu stjórnarsamstarfi að því marki sem það nær út fyrir kerfisvaldið, láta sig hafa það ef þeir fá stóla og verkefni á pappír.

Þetta snýst nefnilega eins og svo mörg mál frá þessari ríkisstjórn, eins og ég hef svo oft bent á, frú forseti, um umbúðir, ekki innihald. Þetta snýst um yfirlýst markmið, ekki raunveruleg áhrif. Þannig fór það að skipta mjög verulegu máli að eitt ráðuneyti héti a.m.k. að hluta til loftslagsráðuneyti af því að einhverjir flokkar höfðu talað um að það þyrfti að stofna loftslagsráðuneyti. Það skipti engu máli hvort þetta umhverfis- og loftslagsráðuneyti væri að einhverju leyti öðruvísi en umhverfisráðuneytið hafði verið en það þurfti að heita þetta af því að það hafði verið talað um það og þá væri hægt að tikka í boxið fyrir vikið. Og innviðaráðuneyti, ekki mjög breytt frá því sem áður var, jafnvel búið að missa ákveðna innviði úr ráðuneytinu en það þurfti að heita innviðaráðuneyti af því að þetta er allt spurning um umbúðir, að geta sagt: Við pökkuðum þessu inn eins og við sögðumst ætla að gera. Svo er treyst á það að enginn líti í pakkann. Fyrir vikið er þetta allt saman gert í, að því er virðist, hálfgerðu óðagoti þegar það var orðið löngu tímabært að kynna nýja ríkisstjórn og ráðherrarnir vissu varla sjálfir hvaða hlutverk þeir væru með. Nöfnin á ráðuneytunum voru að breytast, eins og ég nefndi, og þau eru held ég enn að breytast. Nú eru ráðherrar farnir að taka upp á því að breyta um nafn á eigin ráðuneyti með einhverjum tilkynningum á samfélagsmiðlum. Erum við t.d. með ráðuneyti sem heitir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti? Það er að finna í flestum opinberum gögnum en ráðherrann segist vera háskólaráðherra, tilkynnti um það. Ég veit ekki hvort ráðuneytið er háskólaráðuneyti eða vísindaráðuneyti, það kemur kannski í ljós.

Fleira kann að koma í ljós varðandi verkaskiptinguna því hún, eins og ég nefndi í upphafi, er enn mjög óljós, svo ekki sé minnst á kostnaðinn. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér ítrekað upp og viðurkenndi að ríkisstjórnin hefði ekki hugmynd um hvað þetta myndi kosta. Það myndi alla vega kosta einhver hundruð milljóna, sagði hæstv. ráðherra, en þau vissu ekkert hvað þetta myndi kosta. Hvernig gátu þau líka vitað það? Þau vissu ekkert hvað þau voru að gera. Þau vissu varla sjálf hvaða verkefni ætti að lenda hvar og enn virðist vinna vera í gangi við að greiða úr því. Og enn er kostnaðurinn óljós.

Það sem við þó vitum er að tækifærið hefur verið notað til hins ýtrasta til þess að fjölga starfsmönnum ríkisstjórnarinnar eins og kostur er. Ég er ekki bara að tala um fjölgun ráðherra, ég er að tala um ráðningar í stjórnkerfið, stækkun báknsins, og þar með talið fjölgun aðstoðarmanna ráðherra. Það var nú einmitt eitt af því sem var gagnrýnt hvað harðast hér 2011 þegar vinstri stjórnin lagði fram málið sem þetta mál byggir á, að þar væri verið að opna mjög óhóflega á fjölgun pólitískra aðstoðarmanna. Menn þekkja það að ráðherrar eru með heilu ráðuneytin og stofnanirnar undir þessum ráðuneytum á bak við sig í vinnu sinni og hallar þá oft mjög á stjórnarandstöðu hvað varðar úrræði til að takast á um hin ýmsu pólitísku álitamál. Engu að síður ákvað vinstri stjórnin að fjölga mjög verulega möguleikum á að ráða aðstoðarmenn til ríkisstjórnar. Þá var því reyndar haldið fram af hálfu þeirra sem voru að reyna að koma málinu í gegn á sínum tíma að þetta væri bara möguleiki, menn gerðu ekki endilega ráð fyrir að nýta þetta til hins ýtrasta. En hvað hefur þessi ríkisstjórn gert? Hún hefur ekki bara fjölgað ráðherrum, hún hefur nýtt til hins ýtrasta öll tækifæri, jafnvel allar glufur sem var að finna í frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur og vinstri stjórnarinnar til að fjölga pólitískt ráðnum aðstoðarmönnum. Á sama tíma hefur minni hlutinn hér á þingi mun lakari úrræði til að takast á við meiri hlutann um landsins gagn og nauðsynjar. Þetta kemur frá ríkisstjórninni sem í upphafi síðasta kjörtímabils kallaði stjórnarsáttmála sinn m.a. sáttmála um eflingu Alþingis. Ég sá reyndar að þegar þau endurnýjuðu stjórnarsamstarfið þá gerðu þau sér grein fyrir því að sá brandari væri hættur að virka eftir síðastliðin fjögur ár, enda hefur þessi ríkisstjórn ekki gert annað en að auka vald framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafans og nýtt til þess öll þau tækifæri sem fundust í lögunum, lögunum sem voru svo mjög gagnrýnd á sínum tíma, og eytt í það óhóflegu fjármagni almennings því að báknið hefur aldrei vaxið eins og í tíð þessarar ríkisstjórnar, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með fjármálaráðuneytið eitt árið enn eftir nánast óslitna setu þar í áratug. Það er bara haldið áfram að bæta í og stækka báknið. Á sama tíma fækkar starfandi fólki í einkageiranum sem þarf að standa undir öllu bákninu sem hefur stækkað svo mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þetta mál hér, þetta furðumál sem ég kalla svo, setur þessa ríkisstjórn og stjórnarsamstarfið mjög í samhengi. Þetta er stjórn um stóla, um að geta útdeilt gæðum og hlutverkum til sinna manna. Þetta er ekki stjórn um pólitískar áherslur, kerfið má stjórna því, það má skrifa þingmálaskrárnar fyrir ráðherrana, því þetta er bara spurning um að þessir gömlu flokkar séu að mestu leyti við völd. Hvenær var t.d. Sjálfstæðisflokkurinn, ég þarf ekki að nefna Framsóknarflokkinn í þessu samhengi undanfarin ár, síðast með einhverjar pólitískar áherslur hér í þinginu, í þessu stjórnarsamstarfi? Frelsi og allt þetta, lægri skattar og svona. Hvað er langt síðan þeir hafa gert eitthvað til að innleiða slíkt eða hvað þá bara talað fyrir því? Enda snýst þessi stjórn ekki um það. Hún snýst um allt annað. Og stjórninni líður vel í því ástandi sem hefur varað núna í tvö ár þar sem hún þarf í rauninni að mjög takmörkuðu leyti að svara fyrir pólitíkina. Að því marki sem rætt er um pólitík þá snýst það oft um eða tengist, eins og hér fyrr í dag, umræðu um áhrif faraldursins. Þar fá og hafa fengið stöku þingmenn Sjálfstæðisflokks, að minna leyti Framsóknarflokks, að vera, ef svo má kalla, fríspilandi, reyndar í fleiri málum líka, en algerlega án áhrifa. Þeir fá að tjá sig og svo sjáum við bara aftur og aftur að skoðanir þeirra hafa engin áhrif í stjórnarsamstarfinu. Ég geri ráð fyrir því að þessir þingmenn viti það alveg og jafnvel þó að það séu ráðherrar, eins og hæstv. fjármálaráðherra sem gagnrýndi nýverið eigin ríkisstjórn fyrir skort á framtíðarsýn í því hvernig ætti að takast á við faraldurinn. Ég geri ráð fyrir að þeir viti alveg að þeir hafi mjög takmörkuð áhrif en þeir vilja fá tækifæri til að tikka í þessi box.

Þetta sitjum við uppi með. Eðli þessa stjórnarsamstarfs birtist mjög vel í þessari ókláruðu verkaskiptingu ríkisstjórnarinnar og það mun óhjákvæmilega marka þetta kjörtímabil. Við munum sjá ráðherra vilja færa sig yfir á valdsvið annarra ráðherra. Við munum sjá vandræðagang með hvar starfsmenn ráðuneytanna eigi að sinna sínum skyldum. Það er ekki gott við stjórn landsins, ég tala nú ekki um eftir þessi tvö ár þar sem við þurfum meiri fyrirsjáanleika, meiri skýrleika í það hvernig landinu er stjórnað. Nei, í staðinn erum við með ráðherra sem fengu símtal sem þeir urðu afskaplega ánægðir með, þegar loksins tókst að klára að skipta þessum verkefnum, þó ekki að klára, með þeim fyrirvara að þetta er enn eitthvað óljóst. En þegar menn voru tilbúnir til að kynna stjórnarmyndunina þá fengu nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna símtal þar sem þeim var sagt að þeir yrðu ráðherrar. Þeir urðu auðvitað óskaplega glaðir og var líklega flestum nokk sama um til hvers væri ætlast af þeim. Þeir voru búnir að fá stól. Og þeir fengu meira en stól, þeir fengu uppskrift því það var búið að klára að semja verkefnin fyrir alla ráðherrana áður en þeir vissu að þeir yrðu ráðherrar. Það var búið að semja stjórnarsáttmálann og semja um verkaskiptingu hvað varðar framlagningu frumvarpa. Fyrir vikið fengu ráðherrar jafnvel í hendur uppskrift að málum sem þeir höfðu verið, ef ekki andsnúnir, þá a.m.k. með mjög verulegar efasemdir um. En þeir munu eflaust allir klára að kokka eftir þessari uppskrift. Þótt þeir hafi átt sér drauma um að setja sitt mark á hlutina og búa til sína rétti, ef svo má segja, hafi langað að opna sinn veitingastað með sína pólitísku rétti, framreiða þá, fengu þeir fastráðningu sem kokkar á skyndibitastað og uppskriftina að því hvað þeir ættu að framreiða og hvenær og þeir sættu sig við það. Fastráðningu, segi ég, á því eru reyndar undantekningar því að einhverjum ráðherrum a.m.k. verður haldið á tánum með því að hafa ráðningu þeirra óljósa um sinn, eins og komið hefur fram.

Svona í lokin, frú forseti, þá ítreka ég meginmál ræðu minnar um þetta mál. Það er lýsandi fyrir þessa ríkisstjórn. Það byggir á því sem a.m.k. tveir af stjórnarflokkunum börðust hart gegn á sínum tíma þegar þeir töldu það ekki henta sér, nú þegar þeir telja það henta sér þá eru þeir eindregið fylgjandi því. Það byggir á þeirri staðreynd að þetta er kerfisstjórn. Þetta er ekki pólitísk ríkisstjórn heldur kerfisstjórn þar sem gjaldmiðillinn eru stólar og hlutverk fyrir þingmenn meiri hlutans og skjólstæðinga þeirra flokka.