152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Í greinargerð með þessari tillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem hér er til umfjöllunar, eru alls konar frasar, um upplýsingabyltinguna, um það að brjóta niður ósýnilega múra stofnanamenningar, stuðla að samvinnu og samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins. Það er verið að búa til ný ráðuneyti. Ég vann í fjármálaráðuneytinu á sínum tíma og þá var ég í ákveðnum málaflokki og var bara að vinna í honum, ég gat ekki verið út um allt. Það verður að hafa ákveðnar skrifstofur sem fjalla um ákveðin málefni. Ef þú fjallar um þetta mál, þá fjallar þú ekki um hitt. Það skapast alltaf ákveðin verkaskipting. Það breytir því ekki að textinn sem hér er til umfjöllunar, sem er tillaga til þingsályktunar mínus greinargerðin, skýrir ekki neitt. Það er alveg kristaltært. Þetta verður síðan notað, það verður búinn til forsetaúrskurður sem verður lagður fyrir forseta Íslands og það er heildarplaggið, það er það sem hefði átt að koma hingað til Alþingis Íslendinga. Ég tel líka að þetta hefði allt átt að vera í einum forsetaúrskurði, samkvæmt 15. gr., ekki í þremur forsetaúrskurðum. Við erum í raun bara að fá það sem skiptir minnstu máli, einhver nöfn á ráðuneytunum. Það er búið að ákveða nöfn á ráðherrunum og það eru vitlaus nöfn á ráðherrum í nóvember, þrjú alla vega. Ferðamálaráðherra er dottinn út og vísindaráðherra dottinn út, hann er orðinn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Og svo er það matvælaráðuneytið fræga, með skógræktina og landgræðsluna.

Ég bjóst satt að segja við því, ég er bara svona vitlaus, að fjölmiðlar myndu fjalla um þetta. Það virðist ekki vera. Ég er svolítið hissa á því. Umfjöllun fjölmiðla, um það sem á sér stað í þessu húsi og í þessari stofnun, er algerlega ófullnægjandi. Ég efast um að fjölmiðlamenn hafi lesið eitt einasta þingskjal í þessu máli eða kynnt sér það af einhverju viti, eða kynnt það fyrir almenningi. Það er bara kristaltært, það eru tveir forsetaúrskurðir sem liggja fyrir frá því í nóvember. (Forseti hringir.) Þar er breytingin. Hitt er bara að breyta nafni á ráðuneyti og það er hægt að gera hvenær sem er.