152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að svara spurningunni. Eins og ég sagði í upphafi, og benti til orða hv. þingmanns, þá tel ég það vera pólitíska ákvörðun hvernig þessi skipting á að vera. En ég skil þá ekki það ferli sem við erum í hér ef við ætlum bara að láta það vera pólitíska ákvörðun. Og fyrst hv. þingmaður nefndi að verið væri að færa þjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd yfir, í greinargerðinni, það er ekki í þingsályktuninni sjálfri, þá hefði ég, ef þetta hefði verið frumvarp og greinargerðin væri eitthvað sem ég gæti gert breytingartillögu við, breytt síðustu setningunni þar, en þar stendur:

„Dómsmálaráðuneytið mun áfram fara með réttaraðstoð og hefðbundna stjórnsýslu við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi.“

Ég hefði viljað sjá þessa grein annaðhvort fara út eða að þarna stæði félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Það gladdi mig mjög að heyra að hv. þingmaður vilji gera breytingar á lögum um útlendinga til hins betra þannig að við séum að taka á móti fólki, við séum að sinna því hlutverki sem við eigum að sinna og við gerum það á mannsæmandi og mannúðlegan hátt. Ég býð fram alla aðstoð mína við að setjast niður með hv. þingmanni, og öllum þeim þingmönnum sem styðja það mál innan þingsins, óháð því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, við að laga það.