152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég fagna því að það er greinilegt að ég og hv. þingmaður erum sammála um að það eigi að vera í verkahring og á valdsviði forsætisráðherra hverju sinni að leggja hinar pólitísku línur þegar kemur að ráðuneytunum. Það er einfaldlega samkvæmt því lagaumhverfi sem við störfum núna sem tillagan er lögð fram í formi þingsályktunartillögu eins og hér er gert. Í ýmsum löndum í kringum okkur gerir forsætisráðherra eða ríkisstjórn einfaldlega slíkar breytingar, enda eru ríkisstjórnin og forsætisráðherrann ábyrg fyrir verkum sínum og verkaskiptingu.

Varðandi málefni flóttamanna: Líkt og ég sagði held ég að það sé gríðarlega mikilvægt sem hér er verið að gera, að færa þjónustuna yfir til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Það er eitthvað sem við í Vinstri grænum höfum barist fyrir og lagt gríðarlega mikla áherslu á og ég vona svo sannarlega að þetta eigi eftir að bæta þjónustuna. Ég tel hins vegar, alla vega að svo komnu máli, eðlilegt að það sé stofnun sem fari með umsóknir, þ.e. sem gefi út leyfi, og það er á miklu breiðari hóp en bara til þessa hóps hér á landi (Forseti hringir.) en það kann vel að vera að flytja ætti þetta til með tíð og tíma. Ég held að hér sé stigið gríðarlega mikilvægt skref.