152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Sigmar Guðmundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég vildi rétt við lok umræðunnar halda til haga nokkrum punktum, bæði út frá því sem fram hefur komið hér í dag og svo líka aðeins til að hnykkja á þeirri afstöðu sem mér finnst brýnt að halda á lofti núna þegar mál hafa verið að skýrast við þinglega meðferð þessarar þingsályktunartillögu. Ég vil sérstaklega halda á lofti, komandi þeim megin úr pólitíkinni sem ég kem, að það hefur verið stefnumál og slagorð stærsta stjórnarflokksins lengi að báknið eigi að fara burt, báknið burt. Við eigum að minnka báknið, við eigum að taka til í ríkisrekstrinum, við eigum að fara betur með peningana og við eigum að auka skilvirkni. Allt sem er verið að gera í þessu máli er þvert á það, þó ekki væri nema bara í því að verið er að þenja Stjórnarráðið út. Það er verið að fjölga ráðuneytum í sjálfu sér í óþarfa, það þarf ekki að gera það. Það er verið að fjölga starfsmönnum til að vinna í þessum nýju ráðuneytum og við höfum ekki neinar einustu haldbæru skýringar á því eða einhvern rökstuðning um að það muni skila sér með einhverjum hætti í bættri umgjörð Stjórnarráðsins.

Þetta er svolítið það sem ég myndi vilja gagnrýna. Þessi fjölgun ráðuneyta er auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Henni er algerlega frjálst að gera þetta svona, ég dreg það ekki neitt í efa. En við hljótum hins vegar að halda því til haga að þetta er þvert á það sem til að mynda kemur upp úr vinnu rannsóknarnefndar Alþingis um það hversu stórt Stjórnarráðið þurfi í raun og veru að vera. Það var áhugavert að heyra það hjá einum gesti sem kom fyrir nefndina að í sjálfu sér þyrftu ráðuneytin ekkert að vera fleiri en kannski átta eða níu á Íslandi, í þeirri smæð sem við erum með. En ríkisstjórnin ræður þessu. Hún vill fara þessa leið. Ég tek undir það að hún hafi völd til að gera það en ég ætla hins vegar að gera athugasemd við að þetta sé alltaf fært í þann búning að þetta sé sérstaklega faglegt og það sé nánast nauðsyn að Stjórnarráðið breytist með þessum hætti til að takast á við áskoranir er varða faraldurinn og loftslagsmál og þess háttar. Það þarf ekkert að stilla Stjórnarráðinu upp með þeim hætti sem gert er í þessari tillögu til að vinna vel í þeim málum. Það er vel hægt að skilja þarna á milli.

Ég myndi líka vilja halda til haga, og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir gerði það ágætlega hérna — af því að það sýnir bara svo vel að þetta er pólitísk ákvörðun en ekki fagleg þegar menn rifja hér upp gamlar ræður hjá þeim sem núna sitja í valdastöðu, m.a. á forsetastóli á Alþingi eða voru í stjórnarandstöðu en eru núna í stjórn, þegar hlutverkaskipti hafa orðið eins og gjarnan gerist á löngum pólitískum ferli hjá mönnum — að það var eitt sagt í gær og allt annað í dag. Það er í sjálfu sér ekkert að því en það þýðir að þetta mál er bullandi pólitískt, það er ekki faglegt.

Ég ætla að leyfa mér, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir gerði áðan, að vitna í ræðu sem hæstv. forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, hélt hér fyrir tíu árum síðan eða svo, það var þingveturinn 2011–2012, þá í stjórnarandstöðu og að gagnrýna þá fyrirætlan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að stilla ráðuneytum upp með tilteknum hætti. Þá var verið að tala um umhverfis- og auðlindaráðuneyti í því samhengi. Þessi gagnrýni sem ég er að vísa til og þá kom fram snerist ekki bara um Stjórnarráðið í heild sinni og hvernig vinnan við það var heldur náði þetta líka inn í hina efnislegu þætti ráðuneytanna sjálfra. Þar sagði þá hv. þm. Birgir Ármannsson, nú hæstv. forseti Alþingis, með leyfi forseta:

„Þessu til viðbótar má benda á að það kann í sjálfu sér að vera óheppilegt að færa nýtingu auðlinda og vernd þeirra undir sama ráðuneyti. Það að hafa stefnumörkun og ákvarðanatöku í þessum efnum hjá einu ráðuneyti en ekki tveimur eða fleiri getur raskað jafnvægi milli sjónarmiða nýtingar og verndar. Nýtingarsjónarmið hljóta að jafnaði að vega þyngra hjá atvinnuvegaráðuneyti en verndarsjónarmið hjá umhverfisráðuneyti. Ákveðin togstreita milli mismunandi sjónarmiða í þessum efnum getur verið bæði holl og nauðsynleg. Með því að færa veigamikil verkefni varðandi auðlindanýtingu til umhverfisráðuneytis er ótvírætt hætta á að verndarsjónarmiðin verði mun þyngri á vogarskálunum en nýtingarsjónarmiðin.“

Þetta var fyrir tíu árum. Í dag heitir þetta jafnvægi á milli nýtingar og verndar í stað þess að láta þessa málaflokka fara saman sem einhverjar andstæður. Þannig að menn eru algjörlega búnir að skipta um sjónarhorn og það er bara fínt, það er bara pólitísk afstaða hverju sinni, ekkert rangt við það, en ekki færa þetta í þann búning að það sé einhver rosalega mikil fagleg knýjandi þörf á því að gera þetta með þessum hætti. Það er bara ekki þannig.

Síðan langaði mig aðeins að nefna nokkur orð úr greinargerðinni vegna þess að hún er, eins og ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag, full af fögrum fyrirheitum en það fer lítið fyrir rökstuðningi og útskýringum á því hvernig á að ná þeim markmiðum sem talað er um. Ég vil vitna aðeins í greinargerðina þar sem segir:

„Stofnun nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála er til marks um framsækna stefnu ríkisstjórnarinnar á þessum málefnasviðum. Markmið hins nýja ráðuneytis verður að horfa stöðugt til þess hvernig unnt er að gera hlutina betur en áður, hvernig hægt er að innleiða nýjungar og gera þannig bæði einstaklingum og fyrirtækjum kleift að bæta hag sinn og framtíðarhorfur. Nýtt ráðuneyti kemur til með að styðja við umhverfi nýsköpunar þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín, dafna og vaxa í opnu og frjálsu samfélagi nýsköpunar og samkeppni.“

Þetta er ekki rökstuðningur fyrir því að gott sé að hafa hlutina með þessum hætti. Þetta eru bara einhverjir orðaleppar, falleg orð sem sett eru niður á blað til þess að henda inn í greinargerð og eiga að heita rökstuðningur en eru það ekki. Þetta eru bara einhver orð sem hafa í raun og veru ekki neitt sérstakt innihald. Þetta vil ég gagnrýna.

Svo vil ég líka að segja að það stappar nærri ósvífni, vil ég meina, að tiltaka svona mikið rannsóknarskýrslu Alþingis og þá vinnu alla í greinargerðinni. Þá er verið að tala um það að síðastliðinn áratug hafi verið unnið markvisst að stjórnkerfisumbótum með niðurstöður og ábendingar rannsóknarnefndar Alþingis að leiðarljósi í því skyni að auka sveigjanleika stjórnkerfisins með aukinni samvinnu og samstarfi þvert á ráðuneyti sem tryggja að þekking og mannauður sé nýttur til fulls. Þetta er eiginlega svolítið ófyrirleitið í ljósi þess að við erum með þá stöðu að það var þvert á móti talað um að betra væri að fækka ráðuneytum, hafa þau stærri, efla sérfræðiþekkinguna þá innan þeirra. Það er, eins og komið hefur verið inn á í umræðunni og var nefnt í nefndinni, alveg gríðarlega stórt og mikið atriði, finnst mér, gerir þau aftur í stakk búin til að vera uppfull af faglegri þekkingu sem getur verið eitthvert viðnám gagnvart þeim sérhagsmunaöflum sem vilja, örugglega eðlilega að mörgu leyti, hafa áhrif á gang mála. En það er auðvitað ráðuneyta að sinna almannahagsmunum og standa vörð um almannahagsmuni, jafnvel þótt það sé eitthvert þröngt skilgreint atvinnuvegaráðuneyti eða eitthvað þess háttar.

Mér finnst því ekki gott að verið sé að fjalla um það í þessari greinargerð og tiltaka að verið að gera sérstaklega mikið með það sem fram kom í vinnu rannsóknarnefndar Alþingis á sínum tíma. Upp úr þeirri vinnu komu allt aðrar tillögur og það voru tillögur sem einn núverandi stjórnarflokka studdi heils hugar. Hinir tveir núverandi stjórnarflokkarnir voru þá á móti, ef ég man rétt, töluðu vel og rækilega gegn því, þannig að þetta er allt saman að bíta svolítið í skottið á sér. En mönnum er svo sem alveg frjálst að skipta um skoðun og þá kem ég aftur að þessum punkti: Tölum bara mannamál. Þetta er pólitísk ákvörðun. Tölum þá bara um þetta sem pólitíska ákvörðun. Standið þá og fallið með þessari pólitísku ákvörðun í staðinn fyrir að vera að færa þetta í fallegan búning.

Þessu til viðbótar myndi ég gjarnan vilja taka undir það sem fram hefur komið í umræðunum í dag, og ég svo sem benti á í fyrri umr. um málið áður en það var sent til nefndar, og það er þetta með að fella niður ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins. Fyrir það fyrsta hefur það aldrei verið útskýrt neitt til hlítar hverjir þessir ósýnilegu múrar stofnanamenningar eru. Það er bara sagt að þeir séu þarna. Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til að útskýra fyrir okkur nákvæmlega hvað það er. Það hafa komið umsagnaraðilar fyrir nefndina sem hafa bent á tiltekin dæmi en þessar útskýringar hafa aldrei komið frá stjórnarliðum sjálfum, að ég best veit, sem þá aftur segir manni að þetta eru bara orð á blaði í greinargerðinni og það er ekkert sérstakt á bak við þau orð. Sömuleiðis þetta með að stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins, þar vantar mikið upp á og útskýringar líka.

Ég ætla hins vegar ekkert að efast um að ríkisstjórninni sé full alvara með að gera þetta allt saman og að það sé mjög góður hugur á bak við. En vinnan við þetta, útskýringarnar sem við höfum fengið og rökstuðningurinn, er ekki neitt sérstaklega gott veganesti inn í þetta kjörtímabil. Það verður eiginlega að segjast alveg eins og er.

Síðan langar mig í lokin að halda til haga nokkrum umsögnum og ætla að vera sanngjarn í því að auðvitað voru umsagnir sem bárust nefndinni alls konar, sumar studdu þær breytingar sem heyrðu þá undir viðkomandi umsagnaraðila, aðrar komu með vinsamleg tilmæli eða ábendingar en enn aðrar voru mjög mótfallnar því sem er verið að leggja til. Það er auðvitað mitt hlutverk sem stjórnarandstöðuþingmanns að benda sérstaklega á það sem er þá bara að vinna inn í það að veita aðhald. Og það er þetta sem til að mynda BHM nefndi í umsögn, að breytingar sem þessar auki hættu á lausung og mikilvægt sé að koma í veg fyrir að það skapist jafnvel sú hefð að við hver ríkisstjórnarskipti og/eða ráðherraskipti verði gerðar breytingar á ráðuneytum og/eða stofnunum, ráðuneyti sameinuð, lögð niður eða flutt til með tilheyrandi kostnaðarauka, raski og óþægindum. Þessi umsögn kallast alveg einstaklega á við minnihlutaálit sem hæstv. forseti Alþingis skrifaði fyrir tíu árum og var kjarnyrt og gott.

Það segir jafnframt í umsögn BHM:

„Stjórnarráðið hefur á að skipa háskólamenntaða starfsmenn sem hafa gífurlega þekkingu og reynslu af verkefnum og málefnum Stjórnarráðsins, stefnumörkun og stefnumótun. BHM gerir athugasemdir við að svo virðist sem þekking sérfræðinga Stjórnarráðsins hafi ekki verið nýtt sem skyldi í undirbúningi breytinganna á skipan ráðuneyta sem nú stendur til að festa í sessi …“

Þetta finnst mér mjög alvarlegu punktur í þessu máli öllu. Ég er reyna að velta fyrir mér þankaganginum á bak við þó að ég sé ekkert að gera mönnum illt til, en það er þetta að vera þrír á fundi að velta fyrir sér strúktúr heils Stjórnarráðs verandi með alla sérfræðingana, aðgang að öllum þeim sérfræðingum sem eru í öllum ráðuneytum, minnsta mál að kalla til þekkinguna, fá hana að borðinu, virkja þessa þekkingu með einhverjum hætti. En þetta var allt gert eftir á, eins og kemur glögglega fram í þeirri umsögn sem ég er að vitna hér til.

Síðan er önnur umsögn frá FB, sem var reyndar vitnað til áðan. Þar segir:

„Loks vil ég tjá þá skoðun að fyrirliggjandi frumvarp og greinargerð með því sýnist endurspegla þá sýn að æðri menntun og menning séu fyrst og fremst hagvaxtartæki. Með því að tengja menningu við viðskipti og háskólamenntun við iðnað og nýsköpun er hætt við smættun á veigamiklu hlutverki þessara grunnstoða visku, sköpunar og lífsgleði í landinu.“

Þarna ætla ég ekki að halda því fram að það sé eitthvað slæmt þegar menn eru að móta skólamál landsins að það sé gert með beintengingu við atvinnulíf, ef menn huga að einhverjum efnahagslegum þáttum í því. Það þarf bara að liggja saman við öll önnur atriði sem lúta að almennri velferð, að hugmyndafræðinni um þekkingaröflun. Það allt saman verður að vera tilgangurinn á bak við hitt, svo ég nefni það.

Síðan voru það söfnin sem gerðu athugasemdir við flutning til viðskipta- og menningarmálaráðuneytis. Þar var til að mynda Þjóðminjasafnið með umsögn. Í henni er lagt til að Þjóðminjasafn Íslands, sem er háskólastofnun, verði fært undir forræði ráðuneytis háskóla og vísinda vegna samlegðar þess með háskólum og háskólastofnunum.

Það voru reyndar fleiri umsagnir sem ég hefði gjarnan viljað vitnað til en ég sé að tími minn er að verða búinn. Þó má nefna skólameistara Flensborgarskóla í samráði við fleiri skólameistara sem nefndi að staða framhaldsskólans þyrfti að vera skýr í svona plaggi og ljóst undir hvaða ráðherra skólastigið heyrði. Það var svolítið nöturlegt í allri þessari vinnu að finna einmitt að það var svo mikið um að menn væru hreinlega óvissir um það hvar valdmörk ráðuneytanna væru gagnvart stofnunum og jafnvel hvar verkefnin væru sett undir hvað varðar ráðuneyti.

Ég árétta það sem ég sagði í fyrri ræðu, það er margt athugavert við þetta. En þetta er pólitísk ákvörðun, tölum um þetta sem pólitíska ákvörðun og meiri hlutinn, ríkisstjórnin tekur ábyrgð á þeirri pólitísku stefnumörkun sem liggur á bak við þetta plagg. Það er ekki minni hlutans að gera það og því greiðum við þessu máli ekki atkvæði.