152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og skal reyna að svara. Ástæðan fyrir öllum þessum orðaleppum og þessum fallegu setningum sem má finna í greinargerðinni og hinum fátæklega rökstuðningi þar á bak við, er auðvitað sú, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að það þarf að breyta vægi á milli flokka innan ríkisstjórnar. Það hefði verið hægt að fara aðra leið. Það hefði verið hægt að fara þá leið að fækka ráðherrum Sjálfstæðisflokksins um einn og fækka ráðherrum VG um einn. Haldið þið að það hafi einhvern tímann verið rætt við ríkisstjórnarborðið að mæta kosningaúrslitunum með þeim hætti? Nei. Það er sömuleiðis viðkvæmt hjá stærsta stjórnarflokknum, eins og ég sagði hér áðan, að vera að stækka báknið eitthvað að óþörfu. Ef báknið stækkar og ráðuneytum fjölgar þá þarf að færa það í einhvern búning og það er fyrst og fremst þetta tvennt sem útskýrir allt orðskrúðið og allar þessar fallegu umbúðir. Svo er talað um það líka t.d. að það sé verið að móta ráðuneytin í og með af því að við erum í miðjum heimsfaraldri og af því að það þurfi að taka sérstaklega á loftslagsmálum. Það er búið að tala um loftslagsmálin núna í fleiri ár. Þetta er risastórt verkefni sem er á forræði allra alþjóðastofnana, allra ríkisstjórna víðast hvar um heim, a.m.k. þeirra ríkisstjórna sem vilja láta taka sig alvarlega. Það þarf ekkert að fara í þessar tilfæringar í íslensku stjórnsýslunni til að vinna að þessu. Við vitum öll að þetta er stóra málið á næsta kjörtímabili. Það sama á auðvitað við um fleiri ráðuneyti í þessu. Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta valdi einhverjum ruglingi til lengri tíma en svona hringl er í sjálfu sér ekkert sérstaklega æskilegt nema rökin á bak við það séu þá almennileg og þeim mun betri. En eins og ég er búinn að vera að rekja hér og fleiri þingmenn í umræðunum þá vantar talsvert mikið upp á það.