154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þótt hörmungarnar fyrir botni Miðjarðarhafs séu í öðrum heimshluta eru þær samt svo nærri. Þær hafa snert við okkur öllum og okkur hefur eflaust flestum fundist við vanmáttug gagnvart hryllingnum sem við höfum orðið vitni að. Ísland er agnarsmátt í alþjóðasamfélaginu. Þar hefur Ísland samt rödd eins og önnur ríki og stundum langtum áhrifameiri en stærðin segir til um. Það skiptir því máli hvað við segjum og hvernig þótt við höfum ekki væntingar um að leysa flóknustu deilu samtímans. En við viljum svo sannarlega leggja okkar lóð réttlætismegin á vogarskálarnar.

Þann 27. október síðastliðinn afgreiddi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrstu ályktun þingsins frá því að átök brutust út fyrir botni Miðjarðarhafs í kjölfar hryllilegrar hryðjuverkaárásar Hamas sem hefur staðið yfir frá 7. október síðastliðnum. Ályktunin var lögð fram af Jórdaníu fyrir hönd arabahópsins svokallaða. Kanada lagði fram breytingartillögu sem sneri að fordæmingu hryðjuverkaárásar Hamas og studdi Ísland ályktun Jórdaníu að því gefnu að breytingartillaga Kanada næði fram að ganga. Þessa sömu afstöðu höfðu sömuleiðis lýðræðisríkin ESB, Noregur, Bretland, Ástralía og Japan. Tæplega 90 ríki sem bera virðingu fyrir alþjóðalögum. Um breytingartillöguna náðist þó ekki nægjanleg samstaða á allsherjarþinginu og sat Ísland hjá við afgreiðslu óbreyttrar ályktunar Jórdaníu. Ríki á borð við Íran, Rússland, Kúbu og Norður-Kóreu komu í veg fyrir það að allsherjarþingið ályktaði um hryðjuverkaárás Hamas, árás sem vakti skiljanleg hughrif meðal gyðinga og minntu á helförina, einn svartasta blett í sögu mannkynsins. Hryðjuverkaárás þar sem 1.400 manns, almennum borgurum, var slátrað. Almennir borgarar, ungbörn jafnt sem aldraðir, voru svívirtir, myrtir, brenndir lifandi af hryðjuverkasamtökum sem er ekkert heilagt, allra síst eigin samlandar, Palestínumenn, sem þeir ofsækja, kúga og myrða, m.a. sökum kynhneigðar.

Lýðræðis- og mannréttindaríki heimsins hljóta að líta slíka atkvæðagreiðslu alvarlegum augum. Þarna brást alþjóðasamfélagið. Þarna brugðust Sameinuðu þjóðirnar sem birtast okkur sífellt máttlausari. Og við, þessi fámenni hópur lýðræðis- og mannréttindaríkja heimsins, ættum að þétta raðirnar enn frekar, halda enn fastar í réttindi okkar, gildi og lífsviðhorf. En hér á Íslandi hefur umræðan hreint ekki snúist um það og hún hefur því miður ekki snúist um það sem langflestir Íslendingar geta komið sér saman um og staðið vörð um í þessari flóknu og viðkvæmu stöðu.

Þessi lífsviðhorf okkar og gildi kalla á afdráttarlausa fordæmingu hryðjuverka, fordæmingu á ofbeldi og brotum á alþjóðalögum og skýra kröfu um að þeim sé fylgt undantekningarlaust. Þau kalla á vernd almennra borgara og þegar hún bregst, hlé á átökum til að koma á öruggu og óhindruð aðgengi til mannúðaraðstoðar. Þegar börn og aðrir saklausir verða í skotlínu átaka verður ákallið enn hærra um að stöðva átökin. Átakasvæði á Gaza er versta martröð og grafreitur allt of margra barna og hvert barn sem þjáist, hvert barn sem lætur lífið er einu barni of mikið. Hugur okkar og hjörtu eru hjá þeim, hjá palestínskum borgurum. Þótt Ísrael hafi óskoraðan rétt til sjálfsvarnar eins og önnur ríki [Frammíkall.] er sá réttur ekki takmarkalaus. Því verður að rannsaka öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum og mannúðarrétti til hlítar. Um það erum við sammála.

Við hljótum sömuleiðis öll að vera sammála um að það sé forgangsmál að ná gíslunum til baka úr klóm hryðjuverkamanna Hamas; litlum börnum, táningum konum, eldra fólki, okkar viðkvæmustu samborgurum. Gíslarnir voru dansandi ungmenni á friðarsamkomu, ungir foreldrar sofandi í rúmi með ungbörnum sínum. Auðvitað er hugur okkar hjá þeim. Þess vegna gerum við kröfu um tafarlausa lausn gíslanna. Allir hljóta að taka undir þá kröfu.

Þessi átakahrina er nýleg í stóra samhenginu þar sem átökin eiga sér langa sögu. Því sameinumst við um áherslu á mikilvægi þess að komið verði í veg fyrir frekari stigmögnun átaka og ofbeldis á svæðinu. Við ítrekum að réttlátri og varanlegri lausn á deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna verður aðeins náð með friðsamlegum hætti í samræmi við alþjóðalög og á grundvelli tveggja ríkja lausnar. Það skiptir pólitískur vilji deiluaðila auðvitað höfuðmáli.

Upphrópanir og ásakanir sem hafa gengið á milli hér í umræðunni hafa ekki beinst að því sem við getum verið sammála um og viljum setja í forgang í þessu flókna verkefni heldur öllu fremur að því sem getur mögulega sundrað okkur; hverjir sögðu hvað og hvernig, klukkan hvað og með hversu löngu millibili. Þessi tillaga er lögð fram af utanríkismálanefnd með stuðningi allra flokka á Alþingi, er framlag okkar þingmanna til að tryggja að afstaða Íslands vegna yfirstandandi hörmunga sé skýr. Hún liggur nú fyrir skriflega í þingskjali og enginn vafi leikur á um tímasetningu hennar eða frá hverjum hún stafar. Það er því vonandi að við getum öll snúið okkur að því sem fram undan er, hvernig við getum best lagt okkar af mörkum til lausnar þessa skelfilega ástands.

Það eru ófriðartímar og ný ófriðarbál virðast halda áfram að kvikna. Það verður mikilvægara með hverjum deginum fyrir okkur að standa saman um það sem mestu máli skiptir, um það sem sameinar okkur. Þessi tillaga utanríkismálanefndar er okkar framlag til þess. Við stöndum undir þeirri ábyrgð að vera kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga og stöndum saman um það sem mestu máli skiptir, stöndum saman um það sem sameinar okkur.

Virðulegi forseti. Ég þakka nefndarmönnum í hv. utanríkismálanefnd kærlega fyrir góða og heiðarlega samvinnu við gerð þessarar tillögu. Hún er okkur og þinginu til sóma og ég legg til að hún verði samþykkt.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að tillagan gangi beint til síðari umræðu. [Frammíkall af þingpöllum.]

(Forseti (BÁ): Ef gestir ætla að vera á þingpöllum verða þeir að hafa hljóð.)